Bourne veldur ógleði í Kína

Bíógestir í Kína hafa átt í vandræðum með að horfa á nýju Bourne myndina, Jason Bourne, í þrívídd.

Myndin var frumsýnd í Kína í síðustu viku og samkvæmt notandanum azoombie á samfélagsmiðlinum kínverska Weibo, varð honum óglatt af því að horfa á myndina: „Mér varð óglatt af því að horfa á bardagaatriðin. Þetta var eins og að horfa á ódýra bíómynd. Ég verð að fara aftur á hana í tvívídd.“

Film Title: Jason Bourne

Annar notandi skrifaði: „Það var röð af fólki á klósettinu í bíóinu að kasta upp … ég er ekki að ýkja.“

The Hollywood Reporter segir frá málinu.

Málið er að framleiðslufyrirtæki myndarinnar, Universal Pictures, bjó til þrívíddarútgáfu af myndinni sérstaklega fyrir Asíumarkað, en svo virðist sem blanda af þrívíddinni og klippi- og myndavélatækni leikstjórans Paul Greengrass, þar sem hann notar myndavélar sem haldið er á, valdi þessari ógleði.

Myndin var frumsýnd á þriðjudaginn síðasta. Fólk flykktist í bíó og myndin þénaði 11,8 milljónir Bandaríkjadala á frumsýningardeginum, en það eru mestu tekjur sem Bourne mynd hefur þénað á opnunardegi í Kína. Jason Bourne er fimmta Bourne myndin.

Það sem auðveldar ekki málið er að svo virðist sem þrívíddarútgáfan heilli fleiri bíógesti en tvívíddin, en mögulega munu þessi hliðaráhrif breyta einhverju þar um.

Samkvæmt kínverska dagbaðinu Global Times hafa mótmæli verið skipulögð í Peking til að krefjast endurgreiðslu.

Kínverska skrifstofa Universal Pictures sendi frá sér tilkynningu á Weibo þar sem lofað er fleiri sýningum í tvívídd.