Leto í Blade Runner með Ford og Gosling

Suiciede Squad leikarinn Jared Leto hefur verið ráðinn í hlutverk í framhaldsmynd vísindaskáldsögunnar Blade Runner, en áður höfðu þeir Harrison Ford, sem lék aðalhlutverkið í upprunalegu myndinni, og Ryan Gosling, verið staðfestir í myndina.

jared leto

Ekki er vitað hvaða hlutverk Leto mun leika.

Ennfremur hafa þær House of Cards leikkonan Robin Wright og Mackenzie Davis verið ráðnar í myndina, sem leikstýrt er af Sicario leikstjóranum Denis Villeneuve. Villeneuve er Íslendingum að góðu kunnur þar sem hann hefur unnið með Jóhanni Jóhannssyni kvikmyndatónskáldi með eftirminnilegum árangri bæði í Prisoners og Sicario.

Söguþráður myndarinnar er enn óútgefinn, en það eina sem vitað er, er að myndin gerist nokkrum áratugum eftir atburði fyrri myndarinnar, sem Ridley Scott leikstýrði og var frumsýnd árið 1982.

Von er á framhaldsmyndinni í bíó 6. október á næsta ári, 2017.

Scott verður aðalframleiðandi myndarinnar.