Nýtt í bíó – Batman V Superman: Dawn of Justice

Stórmyndin Batman V Superman: Dawn of Justice verður heimsfrumsýnd 23. mars hérlendis í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, og í Smárabíói, Laugarásbíói, Selfossbíói, Bíóhöllinni Akranesi, Ísafjarðarbíói og Króksbíói Sauðárkróki.

batman

Með helstu hlutverk fara Ben Affleck, sem nú leikur leðurblökumanninn, ásamt Henry Cavill, sem leikur Superman. Leikstjóri er Zack Snyder.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Hinir gríðarlegu kraftar sem Superman er gæddur valda Batman áhyggjum enda gæti Superman hæglega gert út af við veröldina og allt mannkyn ef hann snerist á sveif með illum öflum. Batman skorar því Superman á hólm en á meðan bruggar skúrkurinn Lex Luthor þeim báðum launráð með sinni eigin uppfinningu, Doomsday.

plakatAðalhlutverk: Ben Affleck, Henry Cavill, Amy Adams, Jeremy Irons, Gal Gadot, Jesse Eisenberg, Michael Shannon, Lauren Cohan, Jeffrey Dean Morgan, Jason Momoa og Diane Lane

Leikstjórn: Zack Snyder

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

– Batman v Superman: Dawn of Justice verður heimsfrumsýnd á Íslandi og í örfáum öðrum löndum þann 23. mars, tveimur dögum á undan Bretlandi, Bandaríkjunum og flestum öðrum löndum. Geta því íslenskir áhorfendur orðið á meðal þeirra allra fyrstu í heiminum til sjá hana.

– Handrit myndarinnar er skrifað af Óskarsverðlaunahafanum Chris Terrio sem skrifaði handritið að Argo og David S. Goyer sem skrifaði m.a. Blade, Dark City, Man of Steel og Batman-trílógíu Christophers Nolan.

– Hermt er að þegar forráðamönnum Warner Bros hafi verið sýnd fyrstu sýnishornin úr myndinni síðastliðið sumar hafi þeir hreint og beint risið úr sætum í lok sýningarinnar og klappað, svo hrifnir voru þeir af því sem þeir sáu. Sagt er að þeir hafi strax ákveðið að ráða Ben Affleck til að fara með hlutverk Batmans í þremur öðrum myndum um kappann á næstu árum og þá fyrir utan áðurnefndar Justice League-myndir sem Zac Snyder mun leikstýra. Ef af verður mun Ben sem sagt birtast okkur sem Batman í a.m.k. sjö nýjum myndum á næstu árum því hann kemur einnig fram í hinni umtöluðu mynd Suicide Squad eftir David Ayer sem væntanleg er í bíó í ágúst.

– Þeir Henry Cavill og Ben Affleck fóru í stranga sex mánaða líkamsþjálfun fyrir gerð myndarinnar og bættu samtals á sig tugum kílóa af vöðvum. Voru þeir þó eins og allir vita engir aukvisar fyrir.

– Fyrir utan þau Batman, Superman og Wonder Woman koma ýmsar aðrar ofurhetjur úr DC Comics-heiminum fram í myndinni, þ. á m. Aquaman sem Jason Momoa leikur, The Flash sem Ezra Miller leikur og General Zod sem Michael Shannon leikur, eins og hann gerði í Man of Steel árið 2013.

– Tónlistin í myndinni þykir frábær en hún er eftir Óskarsverðlaunahafann Hans Zimmer og Tom Holkenborg, eða Junkie XL eins og hann kallar sig.