Spider-Man-myndirnar: Frá verstu til bestu

Í tilefni þess að Köngulóarmaðurinn kom óvænt fram í nýrri stiklu Captain America: Civil War, hefur blaðamaður vefsíðunnar NME tekið saman lista yfir allar Spider-Man-myndirnar, frá verstu til bestu.

Amazing-spider-man-movie-2012

Fyrsta myndin um Spider-Man kom út árið 1977 og svo mætti myndasöguhetjan aftur á hvíta tjaldið 2002 þegar Sam Raimi hóf þríleik sinn með Tobey Maguire í aðalhlutverki.

Serían var endurræst árið 2012 með Andrew Garfield í hlutverki Lóa en framleiðslu var hætt eftir aðeins tvær myndir.

Ný mynd um Pétur Parker og ævintýri hans er svo væntanleg á næsta ári með Tom Holland í aðalhlutverki.

Hér á eftir koma myndirnar sex frá verstu til bestu ásamt hluta af skrifum blaðamannsins um myndirnar.

6. Spider-Man (1977)

Þetta var í fyrsta sinn sem Lói komst á hvíta tjaldið. Myndin náði ekki mikilli hylli hjá kvikmyndahúsagestum og hún þykir heldur ekki hafa elst vel.

Hérna er myndin í heild sinni:

5. Spider-Man 3 (2007)

Þriðja myndin í þríleik Sam Raimi var misheppnuð. Dularfullt afl úr geimnum tekur sér bólfestu í Lóa og hann fer að haga sér undarlega. Á sama tíma á hann í höggi við þrjú illmenni, Sandman, Goblin og Venom, auk þess sem Gwen Stacy kemur við sögu. Gallinn við myndina er að alltof mikið var í gangi í einu og illmennin of mörg.

Þetta atriði er eitt af þeim sem mörgum þótti hallærislegt:

4. The Amazing Spider-Man 2 (2014)

Þessi mynd var einnig gagnrýnd fyrir að vera of flókin og fyrir að bjóða upp á of mörg illmenni. Ákveðið var að hætta við næstu myndir sem voru fyrirhugaðar. Illmennið Electro sem Jamie Foxx lék þótti einnig misheppnað.

3. The Amazing Spider-Man (2012)

Fyrri myndin með Andrew Garfield í aðalhlutverkinu varð til upp úr ösku Spider-Man 4, sem ekkert varð úr. Marc Webb tók við keflinu af Sam Raimi. Neistaflugið á milli Garfield og Emma Stone, sem lék Gwen Stacey, átti stóran þátt í vinsældum myndarinnar, ásamt metnaðarfullum hasaratriðunum.

2. Spider-Man (2002)

Fyrsta mynd Sam Raimi um Köngulóarmanninn náði miklum vinsældum. Hún halaði inn 821 milljón Bandaríkjadala í miðasölunni á heimsvísu. Til að byrja með var söguþráðurinn jarðbundinn en undir lokin var myndin orðin full meðvituð um sjálfa sig og fór jafnvel aðeins yfir strikið. Leikur Maguire sem Spider-Man var undir pari en umbreyting Willem Dafoe yfir í illmennið The Green Goblin nægir til að hún hefur staðist tímans tönn.

1. Spider-Man 2 (2004)

Í annarri mynd Sam Raimi er illmennið sjálfur Doctor Octopus (Alfred Molina). Gagnrýnendur hrifust af flókinni persónunni og einnig þóttu hasaratriðin afar spennandi. Myndin tók sjálfa sig ekki of hátíðlega og söguþráðurinn var áhugaverður. Leikur Maguire var einnig töluvert betri en í fyrri myndinni. Þess vegna er Spider-Man 2 sú besta til þessa.