Mikið hlegið á hátíðarforsýningu

Það var mikið hlegið á hátíðarforsýningu rómantísku gamanmyndarinnar Fyrir framan annað fólk eftir Óskar Jónasson nú fyrr í kvöld, mánudagskvöld. Greinilegt var að fólk skemmti sér vel, enda myndin afar vel heppnuð.

2016-02-22 21.41.14

Myndin, sem gerð er eftir handriti Óskars og Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, uppúr samnefndu leikriti Kristjáns, fjallar um Húbert sem er hlédrægur auglýsingateiknari og ekki sérlega laginn við að nálgast hitt kynið. Hann verður ástfanginn af Hönnu, sem er í sárum eftir sambandsslit. Til að ganga í augun á henni bregður Húbert á það ráð að herma eftir yfirmanni sínum, sem er óforbetranlegur kvennabósi. Það dugar til að brjóta ísinn, en málin taka fljótlega óvænta stefnu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sýningin fór fram fyrir fullum sal í Háskólabíó, að viðstöddum leikstjóra, aðalleikurum, framleiðanda og öðrum aðstandendum.

Myndin verður frumsýnd nk. föstudag, 26. febrúar.