Áhrifamikill svikahrappur

Kvikmyndir.is sá heimildarmyndina War of Lies, eða Blekkingarstríð, nú fyrr í kvöld, og það er óhætt að segja að myndin er áhrifamest þeirra fimm RIFF mynda sem fjallað hefur verið um hér á síðunni frá því kvikmyndahátíðin hófst á fimmtudaginn.

war of

War of Lies fjallar um svikahrappinn Rāfid Aḥmad Alwān, sem gekk undir leyninafninu Curveball, en hann hefur hvorki meira né minna en Íraksstríðið á samviskunni.

Rāfid kom sem flóttamaður til Þýskalands árið 1999 vegna þess að hann átti á hættu að vera handtekinn í heimalandinu. Hann sagðist vera efnaverkfræðingur og hafa unnið í verksmiðju þar sem framleidd voru gereyðingarvopn. Framburður hans var svo notaður til að réttlæta innrásina í Írak.

Myndin er fallega gerð. Tónlistin er hófstillt og lágstemmd, viðtalið við Rāfid er tekið upp í yfirheyrslustíl, eins og í einhversskonar fangelsi eða yfirheyrsluherbergi. Það er til áhrifsauka að blaðamaðurinn sem er að spyrja hann spurninga talar þýsku nær allan tímann, en Rāfid svarar á móðurmálinu. Inn á milli eru sviðsett atriði úr frásögn hans.

Spennan er smekklega byggð upp, hægt og sígandi með því að telja niður mánuðina að innrás Bandamanna í Írak, þegar fyrstu loftskeytin lenda á Baghdad.

Blaðamaðurinn reynir ítrekað að fá upp úr Rāfid hvort að hann hafi ekkert á samviskunni, en gengur hægt, þar sem  hann réttlætir gjörðir sínar með því að tilgangurinn helgi meðalið – hann hafi viljað koma Saddam Hussein frá völdum, og það hafi tekist, og að stríð sé alltaf nauðsynlegur fylgifiskur breytinga.

Inn í myndina eru klipptar ýmsar kunnuglegar fréttamyndir sem birtust fyrir og eftir innrásina í Írak, sem líta frekar ankannalega út í ljósi lyganna í manninum, þó enginn efist um að Saddam Hussein hafi verið harðstjóri með skelfilega hluti á samviskunni.

En við mælum með því að fólk sjái þessa mynd.

WAR OF LIES – TRAILER from Matthias Bittner on Vimeo.