Ný kvikmyndahátíð á Hólmavík

victoriaKvikmyndahátíðin Turtle Filmfest fer fram í Hólmavík í fyrsta skipti dagana 10. – 16. ágúst nk.

Í tilkynningu frá hátíðinni segir að hátíðin muni sérhæfa sig í að sýna verk eftir kvikmyndagerðarmenn sem þori að fara út fyrir hinn hefðbundna ramma þess að vera að „segja sögu“.

Sem dæmi nefna aðstandendur myndina Victoria eftir Sebastian Schipper, 140 mínútna langa mynd þar sem allt tal er spunnið á staðnum, myndavélin er látin ganga og afraksturinn sýndur óklipptur.

Aðrar myndir á hátíðinni eru m.a. The Act of Killing, heimildarmynd Joshua Oppenheimer um leiðtoga dauðasveita í Indónesíu sem píndu og drápu meira en eina milljón manna sakaða um kommúnisma á sjöunda áratug síðustu aldar,

The Right Way er síðan eftir myndlistarmennina Fischli og Weiss, en þar klæða þeir sig í rottu – og bjarndýrabúninga, og rannsaka náttúruna.

Ennfremur verður Íslandsfrumsýning á heimildarmyndinni Tristia eftir Stanislaw Mucha sem gerist í kringum Svartahaf og fjallar um glæpamenn sem selja ýmsan vafasaman varning, eins og botox fyllingar á ströndum Búlgaríu.