Taugatrekkjandi sýnishorn úr The Walk!

Ný stikla í fullri lengd er komin út fyrir hina mjög svo taugatrekkjandi mynd The Walk, með Joseph Gordon-Levitt, en þar leikur Gordon-Levitt franska ofurhugann og línudansarann Phillippe Petit. Leikstjóri er Óskarsverðlaunahafinn Robert Zemeckis.

lína

Eins og sést í stiklunni þá ákvað Petit að ganga á línu á milli World Trade Center tvíburaturnanna í New York árið 1974. Verkefnið var algjörlega ólöglegt og stórhættulegt að sjálfsögðu, og hann þarf að fá hjálp frá hópi vina sinna til að undirbúa gönguna.

Rétt er að minnast hér einnig á bresku heimildarmyndina Man on Wire eftir James Marsh frá 2008 sem gerð var um göngu Petit á milli tvíburaturnanna, en hún vann Óskarsverðlaunin í flokki heimildarmynda.

The Walk verður frumsýnd í bæði 2D og 3D þann 2. október nk.