Fúsi valin best í New York

fusiFúsi, nýjasta kvikmynd Dags Kára, var valin besta myndin á hinni virtu Tribeca kvikmyndahátíð, sem nú stendur yfir í New York. Dagur Kári hlaut einnig verðlaun fyrir besta handrit og Gunnar Jónsson var valinn besti leikari í aðalhlutverki.

Þetta kemur fram á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Fúsi tók þátt í „World Narrative“ keppni hátíðarinnar. Tribeca hátíðin var sett á laggirnar árið 2002, m.a. af Robert de Niro og framleiðandanum Jane Rosenthal.

Fúsi segir frá titilpersónunni Fúsa, sem er liðlega fertugur og býr einn með móður sinni. Líf hans er í afar föstum skorðum og lítið sem kemur á óvart. Hann minnir á unga sem hefur komið sér þægilega fyrir í hreiðrinu og hefur enn ekki haft kjark til að hefja sig til flugs. Þegar ung stúlka og kona á hans reki koma óvænt inn í líf hans, fer allt úr skorðum og hann þarf að takast á við ýmislegt í fyrsta sinn.

Dagur Kári leikstýrir og skrifar handritið að Fúsa, sem er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn / RVK Studios. Með aðalhlutverk fara Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir. Tónlist myndarinnar er samin af Slowblow, hljómsveit sem samanstendur af Degi Kára og Orra Jónssyni. Meðframleiðslufyrirtæki er hið danska Nimbus Film (sjónvarpsþáttaröðin Broen og kvikmyndirnar Festen, Mifune‘s sidste sang og Submarino).

„Fúsi er nú í sýningum í Háskólabíói. Fúsi var heimsfrumsýnd á Berlinale Special hluta Berlinale hátíðarinnar sem fram fór í febrúar. Þar hlaut hún afar góðar viðtökur meðal hátíðargesta og gagnrýnenda,“ segir í frétt Kvikmyndamiðstöðvar.