Allt um minnstu mynt í heimi

Íslenska krónan er ný íslensk heimildarmynd sem frumsýnd verður laugardaginn 7. mars í Bíó Paradís. Sýning hefst kl 16:00 og að sýningu lokinni fer fram umræðufundur um stöðu og framtíð íslensku krónunnar. Þátttakendur í pallborði eru Garðar Stefánsson leikstjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur og Katrín Ólafsdóttir lektor við HR. Umræðum stýrir framleiðandi myndarinnar, Atli Bollason.

isl_kronan_stilla_peningasedlar01

Í Íslensku krónunni er, eins og titillinn gefur til kynna, fjallað um gjaldmiðil okkar Íslendinga; sögu hans, stöðu og framtíð. Aðstandendur hafa lagt kapp á að myndin sé auðskilin og fræðandi án þess þó að fórna fjölbreytni í skoðunum né gagnrýninni hugsun. Í einu orði má segja að myndin fáist við svonefnda „gallabuxnahagfræði“ – hagfræði sem er miðlað á einfaldan hátt á jafningjagrundvelli.

Ráðist var í gerð myndarinnar í góðærinu þegar Íslendingar töldu sig einhverja ríkustu þjóð í heimi því gengi krónunnar var svo hátt. Hugmyndin var að bæta þekkingu áhorfenda á hagfræði svo þeir gætu sjálfir metið hvort Íslendingar væru jafnmiklir galdrakarlar í fjármálum eins og af var látið. Nú þegar efnahagslífið hefur náð fótum sínum aftur er líklega ekki vanþörf á að bæta skilning landsmanna á peningamálum á ný og ljá þeim hugtakaforða til að hugsa með gagnrýnum hætti um efnahagsmál.

Áhorfendur eru í upphafi kynntir fyrir nokkrum lykilhugtökum í hagfræðinni og vendipunktum í peningasögunni. Þegar líður á myndina ræða viðmælendur kosti og galla þess að halda úti eigin gjaldmiðli, gæði íslenskrar hagstjórnar, möguleikann á upptöku evru eða annarra gjaldmiðla, gjaldeyri á netöld og tengsl þjóðarsálarinnar við íslensku krónuna svo fátt eitt sé nefnt.