'Hot Tub Time Machine 2' frumsýnd á föstudaginn

hottubtimemachine2Það muna sjálfsagt flestir eftir grínfarsanum Hot Tub Time Machine sem var frumsýndur sumarið 2010 og naut mikilla vinsælda, en hann fjallaði um þá félaga Lou, Nick, Jacob og Adam sem komust að því að heiti potturinn á hótelherbergi þeirra virkaði líka sem tímavél og skaut þeim aftur til ársins 1986. Eftir að hafa jafnað sig á undruninni og leyst úr nokkrum persónulegum málum uppgötvuðu þeir einnig að þeir gátu notað þetta einstaka tækifæri til að breyta sinni eigin framtíð í sannkallað draumalíf.

Framhaldsmyndin Hot Tub Time Machine 2 verður heimsfrumsýnd á Íslandi þann 20. febrúar næstkomandi. Myndin gerist fimm árum eftir það sem gerðist í fyrri myndinni og eru þeir allir mun betur settir en þeir voru fyrir tímaferðalagið. Lou er til dæmis þekktur sem faðir Internetsins á meðan Nick er einn virtasti og vinsælasti tónlistarmaður Bandaríkjanna. Jacob hefur líka gert það gott sem einkaþjónn Lou en Adam virðist alveg hafa dregið sig úr kastljósinu.

Dag einn ákveða þremenningarnir að skella sér á ný aftur í tímann til að breyta framtíð sinni enn meira en lenda þá fyrir slysni í framtíðinni, eða á árinu 2025. Þetta hefði svo sem ekki þurft að gera mikið til en þegar Lou er skotinn af ókunnum aðila þurfa þeir Jacob og Nick að koma sér í hvelli aftur í tímann til að bjarga lífi hans og breyta um leið örlögum hans. En þá gerist nokkuð sem setur allar þeirra áætlanir úr skorðum og býr til nýjar.

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri, Smárabíó, Selfossbíó og Ísafjarðarbíó.