Skyttan skotheld í fyrsta sæti

Clint Eastwood myndin American Sniper  heldur sigurgöngu sinni áfram í miðasölunni í bandarískum kvikmyndahúsum, en myndin þénaði einar 18,3 milljónir Bandaríkjadala í gær, föstudag. Þessi saga um afkastamestu leyniskyttu Bandaríkjanna sem kemur aftur til heimalandsins breyttur maður, mun líklega þéna 60 milljónir dala yfir helgina alla.

AMERICAN SNIPER

Myndin, sem gerist í Íraksstríðinu, og er með Bradley Cooper í aðalhlutverkinu, gæti þar með verið búin að þéna alls 200 milljónir dala frá frumsýningu, sem var um síðustu helgi.

Myndin er tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta mynd.

Ýmsir góðir menn og konur í nýjum myndum urðu að lúta í gras fyrir American Sniper í gær,  þar á meðal Jennifer Lopez og ný mynd hennar The Boy Next Door, en hún var sú önnur mest sótta  í gær í Bandaríkjunum.

Ný mynd Johnny Depp, Mortdecai, og teikni-tónlistarmynd George Lucas, Strange Magic, heilluðu færri.  Hvor um sig náðu myndirnar einungis að þéna 1,5 milljónum dala í gær föstudag, og er spáð um 5 milljóna dala tekjum yfir helgina alla, sem er helmingi minna en framleiðendur og greinendur bjuggust við.