Salóme valin besta norræna heimildamyndin

pinksmoke3Salóme undir leikstjórn Yrsu Roca Fannberg var valin besta norræna heimildamyndin á Nordisk Panorama stutt- og heimildamyndahátíðinni í Malmö. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk heimildamynd hlýtur þessi verðlaun á hátíðinni.

Salóme er sérstaklega persónuleg heimildamynd sem fjallar um Salóme Herdísi Fannberg veflistakonu, sem er jafnframt móðir leikstjórans. Salóme hætti að búa til list til að geta sinnt lífinu. Núna er það listin sem heldur henni lifandi.

Nordisk Panorama er fyrsta erlenda kvikmyndahátíðin sem Salóme tekur þátt á, en áður hafði hún verið sýnd á Skjaldborg heimildamyndahátíðinni á Patreksfirði, þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun sem besta mynd hátíðarinnar.Salóme hefur því unnið til verðlauna á báðum hátíðunum sem hún hefur tekið þátt á.

Næst á dagskrá fyrir Salóme eru hátíðarþátttökur á Szczecin European Film Festival í Szczecin, Póllandi í lok september og á FICCali kvikmyndahátíðinni í Cali, Kólumbíu, þar sem hún mun taka þátt í keppni, einnig í lok september. Þá mun Salóme taka þátt á IFFEST Document.Art. í Búkarest, Rúmeníu, um miðjan október.

Yrsa Roca Fannberg leikstýrir og skrifar handritið að Salóme, auk þess að stjórna kvikmyndatöku og vera einn af klippurum myndarinnar ásamt Stefaníu Thors, Federico Delpero Bejar og Nuria Ezquerra. Helga Rakel Rafnsdóttir framleiðir myndina fyrir hönd Skarkala og meðframleiðandi er Emelie Carlsson Gras. Tónlist myndarinnar samdi Ólöf Arnalds.

Salóme verður frumsýnd hérlendis í Bíó Paradís þann 6. nóvember næstkomandi.