'Sin City: A Dame to Kill For' frumsýnd á föstudaginn

sincityÞað eru komin níu ár síðan fyrsta myndin um Syndaborgina kom í kvikmyndahús en sú mynd sló heldur betur í gegn og því hafa ansi margir beðið spenntir eftir margumtöluðu framhaldi. Þyrstir aðdáendur Syndaborgarinnar geta svalað þorstanum því framhaldsmyndin, Sin City: A Dame to Kill For, verður frumsýnd hér á landi föstudaginn 5. september.

Sagan er byggð á samnefndri bók Franks Miller, en þegar hann skrifaði handritið notaði hann einnig efni úr öðrum Sin City-bókum og óf það inn í söguna þannig að um leið og áhorfendur flakka hér dálítið um í tíma fá þeir glögga sýn á það sem gerðist hjá aðalpersónunum, bæði fyrir atburðina í Sin City og eftir þá. Taka ber fram til að forðast misskilning að sagan í A Dame to Kill For er samt algjörlega sjálfstæð heild þannig að ekki er nauðsynlegt að hafa séð fyrri myndina til að vera með á nótunum í þessari.

Framhaldsmyndin er eins og Sin City leikstýrt af þeim Frank Miller og Robert Rodriguez í sameiningu og í aðalhlutverkum er risastór hópur þekktra leikara sem margir hverjir léku sömu persónur í fyrri myndinni. Fyrir utan þá sem taldir eru upp í kreditlistanum hér til vinstri fara m.a. þau Josh Brolin, Lady Gaga, Juno Temple, Ray Liotta, Christopher Lloyd, Christopher Meloni, Marton Csokas, Jaime King, Jeremy Piven, Jamie Chung, Julia Garner og Stacy Keach með mikilvæg hlutverk í myndinni.

Sin City: A Dame to Kill For verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Selfossbíói, Króksbíói, Ísafjarðarbíói og Bíóhöllinni á Akranesi.