Sprengjur og rokktónlist í teiknimyndinni Up

Hasarmyndaleikstjórinn sprengjuglaði, Michael Bay, er af mörgum talinn forsprakki nýrrar kynslóðar kvikmyndagerðarmanna sem hefur verið áberandi í Hollywood á síðustu árum. Sprengjur, rokktónlist, flaggandi Bandarískir fánar í hægri hreyfingu og sjóðheitar skvísur eru oftar en ekki til staðar og skipta meira máli en persónusköpun og rökrænt innihald. Hvað um það, Bay hefur halað inn mörgum milljörðum með kvikmyndum sínum og er nýjasta afurð hans, Transformers 4, orðin tekjuhæsta bíómynd ársins til þessa.

Bay hefur gert þónokkrar kvikmyndir og má þar helst telja The Rock, Armageddon, Bad Boys og Pain and Gain. Allar þessar myndir hafa sterk höfundareinkenni hans og því væri fróðlegt að skoða hvernig aðrar myndir yrðu ef Bay hefði leikstýrt þeim.

Screen Shot 2014-08-19 at 12.48.03 AM

Hver man ekki eftir teiknimyndinni Up frá Pixar, sem fjallaði um einmana gamlann fýlupúka sem hefur lítið að gera við daginn sinn. Dag einn ákveður hann að láta verða af gömlum draumi sem hann og nýlátin kona hans átti, að ferðast um Suður-Ameríku. Með því að binda þúsundir blaðra við húsið sitt tekst hann á loft og ætlar sér að fljúga heimilinu alla leið.

Hér að neðan má sjá stiklu þar sem myndinni hefur verið breytt eins og Bay hefði eflaust leikstýrt henni.