Gamanmynd frá The Lonely Island væntanleg

Heeb-The-Music-Issue-the-lonely-island-5412363-500-400Universal Pictures hefur staðfest að ný gamanmynd frá þríeykinu The Lonely Island sé væntanleg, en þríeykið samanstendur af Andy Samberg, Akiva Schaffer og Jorma Taccone.

The Lonely Island myndaðist upp úr sjónvarpsþáttunum Saturday Night Live fyrir tæpum 10 árum. Schaffer og Taccone unnu sem handritshöfundar á meðan Samberg fór á kostum í hinum ýmsum hlutverkum. Handritshöfundarnir munu leikstýra myndinni og mun gamanleikstjórinn Judd Apatow verða meðframleiðandi.

Myndin mun fjalla um tónlistargeirann, en tríóið hefur sent frá sér nokkra smelli í gegnum tíðina og má þar helst nefna „Like a Boss“ og „Jizz in My Pants“. Ekki má heldur gleyma tónlistarmyndböndunum sem hafa fylgt með í kjölfarið.

Þríeykið hefur einnig gefið út hljómplötur, Incredibad sem kom út árið 2009 og Turtleneck & Chain sem kom út árið 2011.