Nýir sjónvarpsþættir um myndasöguhetjuna Constantine

constantineFyrsta stiklan úr sjónvarpsþáttunum Constantine var opinberuð fyrir stuttu. Þættirnir eru aðlögun á DC/Vertigo myndasögunni Hellblazer og sækja nafn sitt til aðalsöguhetjunnar John Constantine, glataðrar sálar sem bíður dauðans og óhjákvæmilegrar vistar í helvíti, sökum ófyrirgefanlegra gjörða sinna á árum áður.

Constantine býr yfir skyggnigáfu og særingarmætti, en að þessu sinni virðist hann vera búinn leggja það til hliðar. Það líður þó ekki að löngu þar til hann fer að berjast við illa púka á nýjan leik, vegna þess að hann þarf standa við loforð sem hann gaf vini sínum um að vernda dóttur hans.

Það muna eflaust einhverjir eftir kvikmyndinni Constantine, sem var frumsýnd árið 2005, en hún skartaði engum öðrum en Keanu Reeves í tilhlutverkinu. Að þessu sinni fer breski leikarinn Matt Ryan með hlutverk Constantine, en hann hefur áður leikið í þáttunum Criminal Minds.

Þættirnir hafa ekki fengið frumsýningardag, þeir verða þó sýndir á NBC-sjónvarpsstöðinni. Hér að neðan má sjá stiklu úr þáttunum.