Ofurhetjumyndin Antboy hlýtur áhorfendaverðlaun!

Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin var í Bíó Paradís er nú lokið, en samkvæmt fréttatilkynningu frá hátíðinni þá hlaut hátíðin stórkostlegar viðtökur. Það var ofurhetjumyndin Antboy sem fékk áhorfendaverðlaun hátíðarinnar.

DSC_3598-1-1

„Fjölbreytt og spennandi efnistök hátíðarinnar vöktu almenna hrifningu og stóð upp úr sú gífulega þrjúbíósstemning sem myndaðist á nokkrum vinsælustu sýningum hátíðarinnar, sem vakti upp mikla nostalgíu meðal eldri gesta hátíðarinnar. Skólasýningar sem í boði voru virka daga hátíðarinnar að kostnaðarlausu slógu einnig í gegn,“ segir einnig í tilkynninguni.

Á meðan hátíðinni stóð gafst gestum kostur á að velja sína uppáhalds mynd og greiða henni atkvæði sitt. Átta myndir voru tilnefndar, Antboy, Andri og Edda verða bestu vinir, Dagur krákanna, Á leið í skólann, Fótboltadraumar, Klara og leyndarmál bjarndýranna, Þyngd fílanna og Austanvindur.

Myndin um ofurhetjuna Antboy hlaut flest atvæði og var einnig með bestu meðaleinkunnina þó mjótt hafi verið á mununum.

Antboy og Andri og Edda verða bestu vinir munu halda áfram í almennum sýningum samkvæmt tilkynningu bíósins.

DSC_3602-3

DSC_3619-8