Íslensk náttúra í Cosmos

Í gærkvöldi var frumsýndur fyrsti þáttur hinnar nýju Cosmos seríu á sjónvarpsstöðinni FOX. Stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson leiðir áhorfandann í gegnum vísindalegar staðreyndir og ýmis undur veraldar.

Þættirnir bera heitið Cosmos: A Spacetime Odyssey og eru framhald hinna vinsælu þátta Carl Sagan, Cosmos: A personal Voyage sem gerðir voru 1980. Seth MacFarlane, sem býr til Family Guy-þættina, er einn af máttarstólpum þáttanna og sá um að fjármagna þá að mestu.

cosmos Neil deGrasse Tyson við Kleifarvatn síðasta sumar

Í fyrsta þættinum fer Tyson með áhorfendum í stutta kynningarferð um sólkerfið á ímynduðu geimskipi, sýnir okkur alheimsdagatalið og hvernig heimurinn var skapaður. Íslensk náttúra bregður fyrir í þættinum þegar Tyson útskýrir hvenær fyrsta lífveran skreið á land og sést þar bersýnilega að hann sé staddur við Kleifarvatn. Tyson var staddur hér á landi síðasta sumar í tæpa viku ásamt tökuliði FOX og er áætlað að það verði sýnt meira frá Íslandi í næstu þáttum.

Áður fyrr stjórnaði Tyson þáttunum NOVA ScienceNow en hann kemur oft fram í sjónvarpi í þáttum s.s. The Daily Show, The Colbert Report og Real Time with Bill Maher. Hann er einnig forstjóri Hayden-geimversins í New York.

Hér að neðan má sjá myndskeið af Tyson fara fögrum orðum um Ísland.