Spielberg að endurgera West Side Story?

Leikstjórinn Steven Spielberg er sagður ætla að endurgera hina klassísku kvikmynd West Side Story, sem var gerð árið 1961 og vann alls 10 Óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir bestu kvikmynd.

Spielberg leikstýrði síðast Lincoln og hefur verið orðaður við kvikmyndina American Sniper, en sú mynd virðist vera á bið þessa stundina. Leikstjórinn hefur áður gert endurgerð, en þá setti hann einungis sögusviðið í nútímann í myndinni War of the Worlds. Spielberg hefur þó aldrei verið kenndur við söngleiki og verður því forvitnilegt að sjá hvaða nálgun hann mun hafa á West Side Story.

westside

Í myndinni er sagan af Rómeó og Júlíu færð til nútímans frá Verónu á Ítalíu til Manhattan á New York. Við kynnumst hér elskendunum Tony og Maríu sem tilheyra hvort sinni unglingaklíkunni þar, þegar hópunum lýstur loks saman fer allt alveg gersamlega úr böndunum. Foringi annarrar klíkunnar er drepinn fyrir slysni og Tony fellir banamann hans sem er bróðir Maríu, í hefndarskyni. Ástarsaga Tony og Maríu hlýtur harmsöguleg endalok í þessari stórkostlegu, einstöku og ógleymanlegu kvikmynd.