Frumsýning: The Wolf of Wall Street

leonardo 2Sambíóin frumsýna myndina The Wolf of Wall Street á fimmtudaginn næsta, Jóladag, þann 26. desember. Myndin er nýjasta mynd Martin Scorsese og Leonardo DiCaprio og hlaut á dögunum tvær tilnefningar Golden Globe verðlaunanna, sem besta myndin og fyrir bestan leik karla í aðalhlutverki, Leonardo DiCaprio.

Myndin hefur hlotið nánast einróma lof gagnrýnenda, en hún segir stórmerkilega og sanna sögu verðbréfasalans Jordans Belfort sem varð milljarðamæringur skömmu eftir tvítugt og lifði í hæstu hæðum í nokkur ár áður en veldi hans hrundi til grunna.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

The Wolf of Wall Street eftir Martin Scorsese er gerð eftir tveimur bókum Jordans Belfort sem hann skrifaði um sitt eigið ris og fall á fjármálamarkaðinum á Wall Street á tíunda áratug síðustu aldar. Það er Leonardo DiCaprio sem leikur Jordan, en í öðrum stórum hlutverkum eru þau Jonah Hill, Matthew McConaughey, Cristin Milioti, Jon Bernthal, Margot Robbie og Jon Favreau. „Myndin þykir afar góð eins og jafnan þegar þeir Scorsese og DiCaprio vinna saman og er líkleg til að hljóta margar tilnefningar til Óskarsverðlauna þann 16. janúar,“ segir í tilkynningu frá Sambíóunum.

wolfJordan Belfort varð á sínum tíma frægasti verðbréfasali Bandaríkjanna og þótti með ólíkindum hversu hratt hann byggði upp fjármálastórveldi sitt sem gerði hann og helstu samstarfsmenn hans að margföldum milljónamæringum, en peningarnir fóru m.a. í að kaupa apa á skrifstofuna, eltast við allar sætustu slelpurnar og djamma fram á rauðar nætur.

En fyrirtæki Jordans átti eftir að hrynja til grunna þegar bandarísk fjármálayfirvöld lögðu fram sannanir um ólögleg viðskipti þess sem á endanum kostuðu viðskiptavini Jordans mörg hundruð milljónir dollara …

Aðalhlutverk: Leonardo DiCaprio, Jonah Hill, Matthew McConaughey, Cristin Milioti, Jon Bernthal, Margot Robbie og Jon Favreau

Leikstjórn: Martin Scorsese

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Smárabíó, Laugarásbíó, Selfossbíó, Króksbíó, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmolar til gamans:

• Það muna kannski einhverjir eftir því þegar glæsisnekkjan Nadine, sem áður var í eigu Coco Chanel, sökk undan strönd Sardiníu í júlí 1997 eftir að hafa fengið á sig brotsjó. Mannbjörg varð en málið vakti mikla athygli á sínum tíma vegna þess að eigandinn var hinn ungi Jordan Belfort sem hafði gefið skipstjóranum fyrirskipun um að sigla, þvert á viðvaranir yfirvalda um slæmt veður og mikla ölduhæð.