Umfjöllun: Gravity (2013)

Gravity fjallar í stuttu máli um geimfara sem eru að vinna við viðgerðir á geimfari, 600 kílómetra frá jörðu, þegar eitthvað fer úrskeiðis og þá eru góð ráð dýr.

George Clooney (O Brother, Where Art Thou?Ocean’s Eleven) leikur eitt af aðalhlutverkunum og  stendur sig vel. Myndin er samt að mestu leyti einleikur Sandra Bullock (Speed28 Days og Miss Congeniality). Bullock sýnir að hún getur leikið og er sannfærandi í Gravity.  Einnig kemur Ed Harris (Apollo 13, The Rock) við sögu í myndinni sem stjórnandi ferðarinnar frá jörðu, en hlutverk hans er ekki stórt.

Sandra Bullock

Alfonso Cuarón leikstýrir og skrifar handritið (ásamt Jonás Cuarón). Þeim tekst alveg að halda áhorfendum við efnið og það sem ég tók mest eftir var þögnin í atriðunum, sem var virkilega áhugavert og það mátti heyra saumanál detta í salnum (sem var þéttsetinn). Eftir á hlustaði ég á tónlistina í myndinni og hún er góð, en ekkert sem ég  mun setja í spilarann bara til að hlusta. Svona týpísk „Geimtónlist“ sem á vel við myndina. Tónlistin er í höndunum á Steven Price . Ég sá myndina í 3D og var mjög sáttur við dýptina sem myndin náði.

Myndin er full af spennandi atriðum og fjöri. Verður smá „Amerísk“ á kafla en þeir ná að laga það aftur.
Myndin er núna á Top 250 á www.imdb.com (í sæti #47 með 11,981 atkvæði).

Í þremur orðum:  Spennandi, góður leikur og flott mynd.

Strákurinn minn fór með mér á þessa mynd (11 ára) og hann sagði að þetta væri góð mynd en honum hefði brugðið dálítið í einu atriði. Þegar ég hugsa um sambærilegar myndir þá dettur mér Apollo 13 og Castaway í hug.

Ég gef Gravity 8 af 10.