Gúmmítarzan leikstjóri á RIFF

The-hour-of-the-lynxDanski leikstjórinn Søren Kragh-Jacobsen, sem leikstýrði myndunum Sjáðu sæta naflann minn, frá árinu 1978, sem margir sem komnir eru af léttasta skeiði kannast við úr dönskutímum í skóla, og Gúmmítarzan frá árinu 1981, sem gerð er eftir sögu Ole Lund Kirkegaard, er meðal þeirra erlendu gesta sem væntanlegir eru á RIFF, Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst síðar í mánuðinum.

gerontophilia_brucelabruce

Kragh-Jacobsen kemur í þetta sinn með nýjustu mynd sína, danska sálfræðitryllinn Stund gaupunnar. Kragh-Jacobsen hefur einnig leikstýrt þáttum í Borgen sjónvarpsseríunni sem hefur slegið í gegn hér á landi.

Í tilkynningu frá RIFF kemur fram að auk Kragh-Jacobsen þá sé von á kanadíska leikstjóranum Bruce LaBruce, en hann kemur hingað til lands með myndina Gerontophilia í farteskinu, eða „Gamlingjagirnd“, eins og hún er þýdd á íslensku.

Eins og segir í frétt RIFF þá eru kvikmyndir LaBruce ekki klám í hefðbundnum skilningi en fjalla flestar um kynlíf og jaðartengda kynhegðun. Má þar nefna umfjöllunarefni eins og BDSM, vændi, kynhneigð til uppvakninga- og vampíra ásamt ýmiskonar parafílíu. Myndir LaBruce nota myndmál klámsins en þykja listrænar, þó að þær hafi einnig þurft að þola ritskoðun í gegnum tíðina. Til að mynda var kvikmynd hans „L.A. Zombie“ ekki tekin til sýninga á Kvikmyndahátíðinni í Melbourne í Ástralíu árið 2010 þar sem hún þótti of gróf að mati yfirvalda.

Hans nýjasta mynd, og sú sem sýnd verður á RIFF í ár, þykir þó væg miðað við fyrri myndir LaBruce, a.m.k. myndrænt séð, en hún fjallar um hið óvægna efni gamlingjagirnd á fremur hefðbundinn hátt.

Stikk: