Lesbískar ástir bannaðar innan 17

blue_is_the_warmest_colorBlue is the Warmest Color, sigurvegari síðustu kvikmyndahátíðar í Cannes, hefur mætt nokkrum hindrunum síðan hún var frumsýnd á hátíðinni í maí. Fyrst var úrskurðað að myndin, sem er eftir leikstjórann Abdellatif Kechiche, kæmi ekki til greina í keppnina um bestu erlendu mynd á Óskarsverðlaununum, þar sem myndin verður frumsýnd 9. október í Frakklandi sem er níu dögum eftir að umsóknarfresturinn fyrir löndin að senda inn myndir rennur út.

Dreifingaraðili myndarinnar í Frakklandi er ekki tilbúinn að breyta frumsýningardeginum til að koma til móts við reglurnar í Bandaríkjunum, en þær kveða á um að myndir verði að hafa verið frumsýndar í heimalandi sínu fyrir septemberlok til að eiga möguleika á Óskarstilnefningu. Fyrirfram var myndin talin sterkur Óskarskandidat.

Myndin hefur verið umeild en um er að ræða drama sem fjallar um lesbískar ástir tveggja stúlkna.

Nú hefur dreifingaraðili myndarinnar í Bandaríkjunum, Sundance Selects, ákveðið að klippa ekki djarfar senur úr myndinni til að myndin fái lægri aldursmerkingu, en þar með er ljóst að myndin verður bönnuð innan 17 ára, sem þýðir minni möguleika á aðsókn.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 25. október nk., skömmu eftir sýningar á henni á kvikmyndahátíðinni í New York. Með aðalhlutverk fara Lea Seydoux og Adele Exarchopoulos. 

„Þetta er tímamótamynd með tveimur af bestu leikframmistöðum sem við höfum séð á hvíta tjaldinu,“ sagði forstjóri Sundance Selects/IFC Films, Jonathan Sehring í yfirlýsingu.

„Myndin er fyrst og fremst um ástina, uppvöxtinn og ástríðu. Við neitum að fórna sýn Kechiche [ handritshöfundar ] og klippa myndina til til að fá R stimpilinn … NC-17 stimpillinn er ekki eins fráhrindandi og hann var einu sinni.“