Re-Animator (1985)

Sælir kæru lesendur. Hilmar heiti ég, og er mikill kvikmyndaáhugamaður. Á hverjum föstudegi mun ég gagnrýna B-myndir, költ myndir, indí myndir, ódýrar myndir og almennt lítið þekktar myndir. Slíkar myndir hafa fengið neðri hæðina, á meðan mainstream myndirnar eru sötrandi kampavín á efri hæðinni. Að mínu mati eru þær myndir sem ég mun gagnrýna oft betri en margar mainstream myndir, og eru þær ekki jafn mikil söluvara og mainstream myndirnar. Ég vona að fólki muni líka þessi fasti liður á síðunni.

                                                          Re-Animator  

Re-Animator er hryllingsmynd frá árinu 1985, og er lauslega byggð á verki eftir H.P. Lovecraft. Myndin fjallar að hluta til, í stuttu máli um Herbert West (Jeffrey Combs) sem er hrokafullur og bráðgáfaður læknanemi. Hann hittir læknanemann Dan Cain (Bruce Abbott) í Miskatonic háskólanum, og seinna flytur Herbert inn til hans og kærustu hans, Megan Halsey (Barbara Crampton). Herbert setur upp rannsóknarstofu í kjallara hússins án vitundar þeirra sem búa með honum, en hún uppgötvast þegar Dan vaknar upp við ólæti sem koma frá Herbert og ketti sem hann hefur lífgað við. Herbert getur lífgað lífverur við með notkun efnis, sem er grænt að lit og í vökvaformi. Herbert West og Dan Cain mynda samstarf sem er aðallega byggt á notkun þessa efnis.

Söguþráður myndarinnar er rosalega skemmtilegur. Hann er sömuleiðis frumlegur og myndin heldur sig við efnið allan tímann. Staðirnir í myndinni eru mjög flottir og skemmtilegir. Rannsóknarstofan í kjallaranum þar sem gerðar eru tilraunir með líf og dauða er mjög flott, og atriðin í líkhúsinu og spítalanum eru frábær. Lýsingin í myndinni setur reanimator3tóninn vel, og atriðið í kjallara hússins þar sem ljósakrónan sveiflast fram og til baka á meðan Herbert hlær eftir að hafa hrætt Dan Cain, er eitthvað sem kvikmyndagerðarmenn ættu að taka sér til fyrirmyndar. Leikararnir standa sig frábærlega út alla myndina, svipbrigði Jeffrey Combs eru klassísk, sömuleiðis öskrin í ungfrú Crampton. Leikstjórinn (Stuart Gordon) stóð sig vel, og uppstilling leikaranna í hverju atriði er óaðfinnanleg. Myndin er mjög vel og skemmtilega tekin upp, sjónarhornin eru vel valin, og eru tæknibrellur myndarinnar mikið byggðar á því hvernig myndin er tekin upp. Þeir sem hafa séð þessa mynd, sérstaklega nokkrum sinnum, vita hvað ég meina. Klippingin er til fyrirmyndar, og tónlistin sömuleiðis. Þema lag myndarinnar (Richard Band) er á sinn hátt endurgerð á þema lagi kvikmyndarinnar Psycho (Bernard Herrmann), gert sérstaklega fyrir Re-Animator.

Þetta er að mínu mati besta hryllingsmynd allra tíma. Ef maður horfir á allar gerðir mynda, og er til dæmis mikill ’80s áhugamaður, þá ætti þessi mynd að vera ofarlega á listanum hjá manni, ef ekki á toppnum. Þessi kvikmynd hefur einstakan persónuleika, og er þetta ein af þessum myndum sem maður vill ekki breyta neitt, þrátt fyrir nokkur sjáanleg mistök og mögulega fleira álíka. Það er einstakt andrúmsloft í ’80s myndunum. Andrúmsloftið í Re-Animator er engin undantekning. Þessi mynd hefur fengið hærri status hjá almennum hryllingsaðdáendum en aðrar myndir sem eiga margt sameiginlegt með Re-Animator, ekki er ég hissa á því. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari mynd, hún hefur allt sem maður myndi óska eftir í hryllingsmynd, og í rauninni mynd almennt. Notið endilega helgina í mynda áhorf, og ég mæli með því að þið hafið þessa mynd í huga þegar kemur að valinu.