Góðar myndir með lélegt handrit sjaldgæfar

Jón AtliJón Atli Jónasson leikskáld og handritshöfundur, sem skrifað hefur leikrit og kvikmyndahandrit á borð við Djúpið, Brim, Strákana okkar, Blóðbönd og verið handritsráðgjafi á óteljandi handritum sem hafa orðið að kvikmyndum, segir að það sé sjaldgæft að sjá góða mynd sem er með lélegt handrit. Jón Atli ætlar að kenna fólki undirstöðuatriði í handritsgerð með áherslu á leik og kvikmyndahandrit á sérstöku sumarnámskeiði nú í sumar.

Jón segir í samtali við kvikmyndir.is að námskeiðið sé byggt upp þannig að fyrst læri þátttakendur undirstöðuatriði í handritsskrifum og séu svo settir af stað í að skrifa handrit með öllu sem því fylgir, eins og hann orðar það. Á námskeiðinu eiga þátttakendur svo að skila sínu fyrsta uppkasti að handriti sem Jón Atli vinnur svo áfram með þeim.

Jón hefur áður haldið nokkur námskeið í handritsskrifum, og kennt í Listaháskólanum og háskólum erlendis.

En hver er galdurinn á bakvið það að gera gott kvikmyndahandrit? „Ég held að innsæi sé sterkasta vopnið við handritsskrifin,“ segir Jón Atli. „Að finna sögu sem sleppir ekki af manni takinu. Ef hún gerir það ekki er von til þess að fleiri séu sama sinnis,“ bætir Jón Atli við.

Spurður sérstaklega að því hvaða vægi handritið hefur í gerð bíómyndar segir Jón að handritið sé afar mikilvægt. „Það er númer eitt, tvö og þrjú. Það er sjaldgæft að sjá góða mynd sem er með lélegt handrit. Það er mín reynsla að minnsta kosti. En auðvitað þarf þá að skilgreina hvað er lélegt handrit. Það eru til margvíslegar hugmyndir um það.“

Broen

Vinnur með Broen höfundum

Jón Atli starfar nú sem handritshöfundur hjá Nimbus, fyrirtækinu sem framleiðir meðal annars hina geysivinsælu sjónvarpsseríu Broen. „Ég er að vinna að tveimur myndum í fullri lengd með þeim og er handritshöfundur þeirra beggja. Við vinnum þetta í köflum. Þeir voru að klára að klippa aðra seríu af Broen auk þess sem þeir hafa umsjón með endurgerðum þáttanna í Bandaríkjunum. Nú erum við að velja leikstjóra á annað verkefnið en erum að þróa hitt lengra. Endurskrif og þess háttar,“ segir Jón Atli að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að sækja námskeið Jóns Atla geta sent fyrirspurnir á hugmyndoghandrit@gmail.com, en bent er á að takmarkaður sætafjöldi er í boði.