Rómeó og Júlía koma í haust – Ný stikla!

Árið í ár ætlar að verða gott ár fyrir kvikmyndagerðir af verkum enska rithöfundarins William Shakespeare. Í sumar mun ofurhetjuleikstjórinn Joss Whedon færa okkur nútímalega útgáfu af hinni svörtu kómedíu Shakespeare, Much Ado About Nothing, sem áður hefur verið gerð kvikmyndaútgáfa af í leikstjórn Kenneth Branagh árið 1993, en nýja myndin verður frumsýnd 21. júní nk. Þá er væntanleg kvikmyndagerð af einni frægustu sögu Shakespeare, Rómeó og Júlíu, í leikstjórn Carlo Carlei, en stikluna fyrir þá mynd má sjá hér fyrir neðan:

Það hefur orðið nokkur seinkun á þessari mynd, en nú loksins sér fyrir endann á biðinni. Hailee Steinfeld fer með hlutverk Júlíu en þetta er fyrsta hlutverkið sem Steinfeld fékk eftir frábæra frammistöðu sína í Coen myndinni True Grit.

Aðrir leikarar í Rómeó og Júlía eru m.a. Douglas Booth, Damian Lewis, Paul Giamatti, Stellan Skarsgard, Natascha McElhone og Kodi Smit-McPhee. 

Steinfeld hefur ekki sést á hvíta tjaldinu síðan hún lék í True Grit, en í ár mun hún koma fram í tveimur myndum, bæði er Rómeó og Júlía væntanleg í haust, en einnig er vísindaskáldsagan Ender´s Game væntanleg í nóvember, en þar fer Steinfeld með eitt af aðalhlutverkunum.