Lína langsokkur handtekin

Tami Erin sem lék Línu langsokk í bíómyndinni The New Adventures of Pippi Longstocking, var handtekin grunuð um líkamsárás á fimmtudaginn síðasta, en hún er talin hafa ráðist á herbergisfélaga sinn.

Það er fréttaveitan TMZ sem greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Samkvæmt fréttum frá lögregluyfirvöldum í Walnut Creek í norður Karólínufylki í Bandaríkjunum, þá var Erin handtekin borgaralega af nágranna sínum sem heyrði Erin og karlkyns herbergisfélaga hennar rífast hástöfum.

Lögreglan segir að á einhverjum tímapunkti hafi félaginn kallað á hjálp og þá hafi nágranninn komið hlaupandi og handtekið Erin borgaralega þar til lögreglan kom á staðinn.

Lögreglan bókaði Erin síðan fyrir árás og sleppti henni svo á föstudagsmorguninn. Lögreglan segir að engir sjáanlegir áverkar hafi verið á fórnarlambinu og búið sé að senda málið til saksóknara til nánari skoðunar.