Harrison Ford er Nr. 1 í USA

Hin ævisögulega bíómynd 42, sem fjallar um hinn goðsagnakennda hafnaboltaleikmann Jackie Robinson, var vinsælasta myndin í Bandaríkjunum í gær föstudag, og þénaði 9,1 milljón Bandaríkjadala, samkvæmt áætluðum tölum.

Myndin var frumsýnd í gær á 3.003 bíótjöldum og stefnir í að þéna um 20 milljónir dollara yfir alla helgina.

Hin myndin sem frumsýnd var í gær á svipuðum fjölda sýningarstaða, var gamanmyndin Scary Movie 5, með þau Charlie Sheen og Lindsay Lohan meðal helstu leikenda. Myndin var sú önnur vinsælasta í Bandaríkjunum í gær með tekjur upp á 5,5 milljónir dala, og stefnir í 13,5 milljónir dollara yfir helgina alla.

42 er skrifuð og leikstýrt af Brian Helgeland ( A Knight´s Tale ) og í aðalhlutverkinu er Chadwick Boseman í hlutverki Robinson og Harrison Ford sem leikur framkvæmdastjóra Dodgers hafnaboltaliðsins, Branch Rickey. 

Scary Movie 5 er nýjasta myndin í seríu sem hefur gengið síðan árið 2000 þegar fyrsta myndin var frumsýnd. Leikstjóri myndarinnar er Malcolm D. Lee, sem síðast leikstýrði Soul Men.

Myndin kostaði 19,5 milljónir dala í framleiðslu.

Toppmynd síðustu helgar, Evil Dead, var þriðja vinsælasta myndin í gær, með tekjur upp á 3,2 milljónir dala.

Í fjórða sæti voru hellisbúarnir í teiknimyndinni The Croods og G.I. Joe: Retaliation var í fimmta sæti með 2,9 milljónir dala í tekjur, en myndin er um það bil að skríða yfir 100 milljón dala tekjumarkið í Bandaríkjunum.