Tapaði fyrir IMDB.com sem uppljóstraði um réttan aldur hennar

Leikkona frá Texas, Huong „Junie“ Hoang, 42 ára, sem hélt því fram að hún hefði misst af hlutverkum í kvikmyndum eftir að kvikmyndavefsíðan the Internet Movie Database, eða IMDb pro, birti raunverulegan aldur hennar á vefsíðunni, hefur tapað tímamóta dómsmáli sem hún höfðaði á hendur IMDb.

Hoang höfðaði málið með stuðningi stéttarfélaga leikara í Bandaríkjunum, en lögsókn hennar snerist um samningsbrot eftir að IMDb notaði upplýsingar og staðfestingarupplýsingar að auki frá þriðja aðila, til að komast að og birta raunverulegan aldur leikkonunnar á „Pro“ vefsíðu IMDB.com, en það er sá hluti síðunnar sem hægt er að fá aðgang að gegn gjaldi og er notuð mikið af umboðsmönnum í Hollywood.

Kviðdómur í Seattle komast að því í gær að vefsíðan, sem er í eigu verslunarrisans Amazon.com, hefði ekki brotið á rétti Hoang.

Fyrst þegar leikkonan fór í mál við IMDb árið 2011 þá gerði hún það nafnlaust og vonaðist eftir að IMDb yrði gerð refsing upp á eina milljón Bandaríkjadala og hún fengi að auki bætur upp á 75 þúsund dali.

„Ef einhver er talinn vera kominn yfir ákveðin mörk, þ.e. að nálgast fertugt, þá er nærri ómögulegt fyrir leikkonu á uppleið, eins og stefnandi er, að fá vinnu […]“ sagði í upphaflegri kæru Hoang.

Dómari neyddi Hoang síðar til að koma úr felum og gefa upp hver hún væri og mál hennar var síðan tekið fyrir á öðrum forsendum.

Leikkonan sagði að hún hefði gleymt að setja inn réttan aldur sinn þegar hún skráði sig inn á IMDB Pro árið 2008, og hún hafi því verið undrandi þegar einhver hafði bætt því við á síðuna hennar þar. Öllum tilraunum hennar til að fá þessu breytt til baka var hafnað af IMDB, að því er leikkonan segir í kærunni, og í kjölfarið missti hún af nokkrum hlutverkum.

Hoang hefur leikið í fremur óþekktum verkum, svo sem Fifth Ward, A Gang Land Love Story og Ungirlfriendable.

Sem fyrr sagði þá studdu leikarasamtök leikkonuna og the Screen Actors Guild (SAG-AFTRA) sagði í yfirlýsingu: „Raunverulegur aldur leikara kemur ráðningu í hlutverk ekki við. Það sem skiptir máli er aldursbilið sem leikarinn getur leikið.“

IMDb sagði fyrir réttinum að það hefði rétt á því að birta sem nákvæmastar upplýsingar.

Smellið hér til að lesa nánar um málið á vef breska blaðsins The Guardian.