Kvikmyndagagnrýni: Side Effects

Einkunn 4/5

Kvikmyndin Side Effects er nýjasta kvikmynd leikstjórans Steven Soderbergh en hann á farsælan feril að baki sem leikstjóri og framleiðandi og má þar nefna Ocean´s þríleikinn, Traffic, Erin Brockovich og The Informant. Með aðalhlutverk í kvikmyndinni Side Effects fara þau Jude Law, Rooney Mara, Channing Tatum og Catherine Zeta Jones.

Myndin segir frá ungri konu , Emily (Rooney Mara), sem tekur á móti kærasta sínum (Channing Tatum) úr fangelsi eftir fjögurra ára aðskilnað. Þrátt fyrir að vera loks búin að fá kærastan sinn heim aftur á Emily við þunglyndi að stríða og fyrr en varir hefur hún reynt að framkvæma sjálfsmorð með því að keyra bíl sínum á steyptan vegg. Þegar hún vaknar upp á spítalanum tekur á móti henni geðlæknirinn Dr. Banks (Jude Law) sem lætur sannfærast af Emily um að leggja hana ekki inn á geðsjúkrahús heldur koma þess í stað og hitta hann nokkrum sinnum í viku. Í kjölfarið skrifar Dr. Banks upp á nýtt þunglyndislyf fyrir Emily eftir að hafa fengið ráð frá fyrri geðlækni hennar (Zeta Jones). Allt virðist komið á betri veg og Emily líður töluvert betur. Þetta nýja geðlyf hefur hins vegar þær skelfilegu afleiðingar að Emily myrðir kærasta sinn í svefni. Í kjölfarið fara í gang málaferli þar sem Emily er lögð inn á geðspítala á meðan að líf Dr. Banks dregst niður í súginn þar sem hann er talinn bera ábyrgð á þessum hörmulega atburði. Dr. Banks getur þó engan veginn sætt sig við þessi örlög og ákveður að grafast fyrir um málið og hvað hafi getað valdið því að Emily myrti eiginmann sinn í svefni. Hefst nú svakaleg atburðarás sem dregur Dr. Banks inn í aðstæður sem fær hann til að efast um allt það sem áður hefur gerst og áður hefur verið nefnt.

Side Effects er ein af þessum spennumyndum sem togar mann inn í söguþráðinn frá byrjun til enda og sleppir manni ekki fyrr en credit listinn byrjar að rúlla. Handritið er mjög vel skrifað, mjög þétt og gefur myndinni nákvæmlega það flæði sem hún þarfnast. Söguframvindan og söguþráður myndarinnar kemur mjög á óvart og áhorfandinn er tekinn frá því að fylgjast með sorgarsögu þunglyndrar manneskju yfir í spennutrylli þar sem geðlæknirinn leitar svara við ráðgátum sem plaga hans fag- og persónulega líf. Kvikmyndin þarf þó ekki á æsilegum bílaeltingaleikjum eða skotbardögum að halda heldur treystir á söguna sjálfa og hvernig Soderbergh nær að draga áhorfandann inn í þá sögu.

Þá er myndin ótrúlega vel stílfærð, með viðeigandi tónlist sem setur drungalegan tón sem passar vel við þema myndarinnar. Myndatakan er ótrúlega vel útfærð og fær að njóta sín með hjálp leikaranna sem ráða svo mjög vel við „close up“ senurnar sem einkenna myndatöku myndarinnar. Talandi um leikarana að þá eru Rooney Mara og Jude Law í aðalhlutverkum og fara virkilega vel með hlutverk sín. Rooney Mara er á hraðri uppleið í kvikmyndaheiminum og hún sannar í þessari mynd að hún er ekki leikari bara til gamans, heldur hefur hún hæfileika til að gera stórkostlega hluti. Jude Law hefur sjaldan verið betri og passar fullkomlega inn í hlutverk Dr. Banks. Þá kemur Zeta Jones skemmtilega á óvart og sýnir á sér nýja hlið á sama tíma og Channing Tatum kemst vel frá sínu hlutverki.

Á heildina litið er Side Effects frábær spennutryllir með alvarlegum undirtóni. Þá er einnig að finna ádeilu í myndinni á lyfjaiðnaðinn og hvernig geðsjúkdómar og þunglyndi eru meðhöndlað með hjálp ólíkra lyfja sem skapa lyfjafyrirtækjum fleiri billjarða í tekjur á hverju ári. Fyrst og fremst er þetta þó mynd sem fjallar um mannlegt eðli og hversu langt manneskjan er tilbúin að ganga til þess að viðhalda ákveðnum lífsstíl og persónulegum frama. Steven Soderbergh sýnir hér hvað í honum býr og gefur kvikmyndaáhorfendum dæmi um hvernig eigi að gera góða bíómynd. Af öllum þeim kvikmyndum sem sýndar eru í kvikmyndahúsunum um þessar mundir er Side Effects ein sú allra besta, ef ekki sú besta, svo ef þú ert að hugsa um að gera þér ferð í kvikmyndahúsin þá er nánast skylda að sjá Side Effects. Ég segi einfaldlega góða skemmtun.