Næsta Bond mynd kemur 2016

MGM kvikmyndaverið sem sér um dreifingu á hinni ódauðlegu 50 ára gömlu kvikmyndaseríu um njósnara hennar hátignar James Bond, vonast til að næsta mynd verði frumsýnd innan þriggja ára, sem þýðir að fjölmargir aðdáendur myndanna þurfa að bíða til ársins 2016 eftir nýrri mynd.

Þetta er þó styttra bil á milli mynda heldur en bilið sem var á milli Quantum of Solace og Skyfall, nýjustu myndarinnar, en fjögur ár voru á milli frumsýninga þeirra mynda.

Reuters fréttstofan greinir frá því að nýr forstjóri fyrirtækisins, Gary Barber, hafi sagt fjárfestum á símafundi  að MGM og framleiðendur myndanna, Barbara Broccoli og Michael G. Wilson, hafi nú þegar ráðið hinn Óskarstilnefnda handritshöfund John Logan, sem skrifaði Gladiator og The Aviator, til að skrifa handrit nýju myndarinnar.

Leit að leikstjóra stendur yfir en Sam Mendes, leikstjóri Skyfall, gaf ekki kost á sér í nýju myndina. Sömuleiðis gefur Danny Boyle ekki kost á sér í verkefnið.

„Við eru mjög spennt fyrir framhaldinu; við hlökkum til að tilkynna nýjan leikstjóra bráðlega,“ sagði Barber. „Við erum sem stendur að þróa handritið og vinna með samstarfsaðilum okkar … Við vonumst til að myndin verði frumsýnd innan þriggja ára.“

Daniel Craig er með samning um að leika spæjarann í tveimur myndum til viðbótar, sem þýðir að leikarinn verður orðinn 48 ára þegar næsta mynd verður frumsýnd. Það er sami aldur og Roger Moore var á þegar hann lék í The Man With the Golden Gun.  Eftir það lék Moore í fimm öðrum James Bond myndum, þannig að miðað við það á Craig nóg eftir.

 

 

Stikk: