Wiig fær lottóvinning

Kristen Wiig hefur verið  eftirsótt gamanleikkona síðan hún sagði skilið við grínþáttinn Saturday Night Live. Um þessar mundir er hún að leika í Anchorman 2: The Legend Continues með Will Ferrel, Steve Carell og fleiri góðum.

Meðal nýrra verkefna sem bíða þessarar skemmtilegu leikkonu er myndin Welcome to Me sem fjallar um konu með margskiptan persónuleika sem vinnur stóran peningavinning í lottóinu og ákveður að eyða peningunum í að kaupa sér aðgang að kapalsjónvarpsrás þar sem hún ætlar að halda úti spjallþætti um eigið líf.

Það eru Will Ferrell, meðleikari hennar í Anchorman 2 og aðalstjarna þeirrar myndar, og leikstjóri Anchorman 2, Adam McKay, sem munu framleiða myndina í gegnum framleiðslufyrirtæki sitt Gary Sanchez.

Leikstjóri verður eiginkona McKay, Shira Piven, og handritshöfundur verður Eliot Laurence. 

Auk þessara tveggja verkefna þá mun Wiig strax á þessu ári koma fram í eftirtöldum myndum:  The Skeleton Twins, Girl Most Likely, Hateship, Loveship, Despicable Me 2 og The Secret Life Of Walter Mitty.