Michael Clarke Duncan í sínu síðasta hlutverki

Bandaríski leikarinn Michael Clarke Duncan lést fyrir aldur fram á síðasta ári. Duncan lék í fjölda vinsælla mynda, þar á meðal Armageddon, Planet of the Apes og Kung Fu Panda, en hátindinum náði hann í kvikmyndinni The Green Mile, sem gerð var eftir samnefndri skáldsögu Stephen Kings, en fyrir hana var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti aukaleikari í karlhlutverki árið 1999.

Duncan mun koma fram á hvíta tjaldinu á ný í nýrri kvikmynd sem ber heitið A Resurrection og er yfirnáttúruleg hrollvekja. Myndin fjallar um nemanda í framhaldsskóla sem er í sorg vegna dauða bróður síns og er talið að bekkjarbræður hans hafi valdið dauða hans.

Duncan leikur skólastjóra og er langt í frá í aðalhlutverki en það er samt sannarlega þess virði að sjá þennan leikara að störfum í hinsta sinn. Með önnur hlutverk fara Mischa Burton og Devon Sawa.