Tómas leikur á móti Kevin Costner

Íslenski leikarinn Tómas Lemarquis, sem er meðal annars þekktur fyrir aðalhlutverkið í mynd Dags Kára Péturssonar Nói Albinói, hefur verið ráðinn til að leika í myndinni Three Days to Kill ásamt hinum þekkta bandaríska leikara Kevin Costner.

Myndin fjallar um dauðvona leyniþjónustumann sem er að reyna að ná aftur sambandi við dóttur sína, þegar honum er boðið tilraunalyf sem gæti bjargað lífi hans. Lyfið fær hann þó eingöngu ef hann er til í að taka að sér eitt lokaverkefni.

Samkvæmt IMDB kvikmyndavefnum þá er það enginn annar en franski leikstjórinn Luc Besson sem skrifar handrit myndarinnar ásamt Adi Hasak. 

Á meðal annarra leikara eru danska leikkonan Connie Nielsen sem lék meðal annars aðalkvenhlutverkið í Gladiator á móti Russell Crowe.

Leikstjóri er McG.