Ein sú magnaðasta á Svörtum sunnudegi

Ein magnaðasta spennumynd allra tíma, eins og henni er lýst í tilkynningu frá Bíó Paradís, The Wages of Fear, eða Laun óttans, verður sýnd í költ – og klassík klúbbnum Svartir sunnudagar, á næsta sunnudag kl. 20. Aðeins verður um þessa einu sýningu á myndinni að ræða, eins og venjan er með sýningar á myndum á Svörtum sunnudögum.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Myndin fjallar um hóp manna sem er heitið ríflegri áhættuþóknun fyrir að flytja í skyndi farm af nitrógliseríni gegnum torfæran skóg. Vörubílarnir eru illar búnir til flutninga á svo sprengifimum farmi og á milli vörubílstjóranna myndast rígur um það hverjir þeirra koma farminum á áfangastað. Gríðarleg spenna myndast þegar ekið er yfir lélegar hengibrýr og drullusvöð en ekkert fær stöðvað mennina sem eiga allt undir því að hljóta laun fyrir að takast á við ómennskan óttann, komist þeir alla leið. 

Myndin hlaut gullpálmann í Cannes og gullbjörnin í Berlín árið 1953. Hún er eitt af snilldarverkum leikstjórans Henri-Georges Clouzot og gerði aðalleikarann Yves Montand að einni af skærustu stjörnum kvikmyndanna.

Eins og alltaf þá láta Svartir sunnudagar sérhanna plakat fyrir myndir sem sýndar eru. Plakatið fyrir The Wages of Fear hannaði Þórarinn Leifsson, og má sjá það hér að neðan: