Frumsýning – Arbitrage

Bíó paradís frumsýnir myndina Arbitrage  á morgun, laugardaginn 19. janúar. ( upphaflega átti að frumsýna myndina í kvöld, föstudagskvöldið 18. janúar, en fresta þurfti frumsýningu af tæknilegum orsökum ).

Þetta er nýjasta mynd bandaríska leikarans Richard Gere og er leikstýrt af Nicholas Jarecki.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Í tilkynningu frá bíóinu segir að hér sé á ferðinni hörkuspennandi og magnaður þriller um siðlaust en sjarmerandi fjármálatröll, með allt niðrum sig, sem reynir að komast upp með glæp. „Richard Gere fer á kostum í þessari frumraun leikstjórans Nicholas Jarecki sem fengið hefur afbragðs dóma og viðtökur,“ segir í tilkynningunni.

Söguþráðurinn er þessi:

Við hittum fyrir Robert Miller, stjórnanda fjárfestingasjóðs í New York, á sextugsafmæli hans. Hann virðist um flest vera tákngervingur velgengni í viðskiptum sem fjölskyldulífi. En undir yfirborðinu leynist napur veruleikinn. Miller er með allt niðrum sig en er að reyna að selja fyrirtæki sitt til stórs banka áður en svindlstarfsemi hans er afhjúpuð. Hann leynir jafnframt stöðunni fyrir konu sinni og dóttur, sem á að taka við fyrirtækinu. Eins og þetta sé ekki nóg stendur hann jafnframt í framhjáhaldi með frönskum listaverkasala. Um það bil sem honum er að takast að ganga frá sölu fyrirtækisins verður skelfileg uppákoma og dómgreindarbrestur hans virðist ætla að verða honum að falli. Miller leitar til gamals vinar með vafasama fortíð um að bjarga því sem bjargað verður.