Íslendingur tilnefndur til BAFTA verðlauna

Kvikmyndagerðarkonan Eva Sigurðardóttir, sem nú starfar sem framkvæmdastjóri ljósmynda og kvikmynda hjá Save the Children í Bretlandi, og starfaði áður fyrir breska ríkisútvarpið BBC, hefur verið tilnefnd til bresku BAFTA kvikmyndaverðlaunanna fyrir stuttmyndina Good Night, sem hún framleiðir.

BAFTA kvikmyndaverðlaunin eru virtustu kvikmyndaverðlaun Breta, sambærileg Óskarsverðlaununum í Bandaríkjunum.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Í samtali við morgunútvarpið á RÚV sagðist Eva vera í skýjunum með tilnefninguna.

Í samtalinu sagði hún einnig að myndin hefði verið tekin upp fyrir tveimur árum síðan og fjallaði um tvær 14 ára stelpur sem fara út að skemmta sér, og þykjast vera eldri en þær eru í raun. Þær lenda í ýmsum vandræðum þetta kvöld og læra ýmislegt um æskuna og vinskapinn.

Eva segir að eftir að tilnefningin var gerð opinber hafi myndin strax hlotið aukna athygli, boð á ýmsar kvikmyndahátíðir, en myndin hefur nú þegar verið sýnd á fjölda hátíða.

Myndin er eftir leikstjórann Muriel d’Ansembourg.

Eva segir í samtalinu við RÚV að tilnefningin sé afar spennandi og geti breytt miklu fyrir sig, leikstjórann og myndina. „Þetta er svo mikill heiður að maður er varla búinn að taka þetta inn,“ sagði Eva m.a. við morgunútvarp RÚV.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu myndarinnar.