Prestur heillaði 400 Selfyssinga

Íslenska heimildamyndin Hreint hjarta, eftir Grím Hákonarson, sem frumsýnd var um helgina í Bíó paradís og SAMbíóinu á Selfossi, náði að heilla Selfyssinga svo um munaði, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. „Mikil aðsókn var á heimildarmyndina Hreint hjarta á Selfossi um helgina og nú hafa um 400 manns séð hana þar í bæ. Myndin var frumsýnd á föstudaginn var og er þetta er besta aðsókn sem mælst hefur í bíóinu lengi en myndin fjallar um líf og störf séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar, sóknarprests á Selfossi, og deilur hans innan kirkjunnar,“ segir í tilkynningu frá höfundi myndarinnar.

Grímur Hákonarson ásamt aðalpersónu myndarinnar, sr. Kristni  Ágústi Friðfinnssyni og biskup Íslands, Séra Agnesi M. Sigurðardóttur. Myndin er fengin að láni af facebook síðu myndarinnar.

Í tilkynningunni segir einnig að Sambíóin hafi gefið það út að bíóinu á Selfossi verði lokað 1. nóvember n.k. þar sem þau treysti sér ekki til að endurnýja sýningarbúnaðinn. „Upphaflega stóð til að hætta sýningum á Hreinu Hjarta í kvöld (þriðjudag) en vegna góðrar aðsóknar hefur 10 sýningum verið bætt við. Það má því segja að myndin sé að halda lífi í bíóinu og að Selfyssingar séu að gefa þau skilaboð að þeir vilji að bíóið haldi áfram starfsemi sinni.“

 Gengur ekki upp

Í frétt Fréttablaðs Suðurlands segist Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar ekki hafa trú á að lokun bíósins verði að veruleika, slíkt gangi hreinlega ekki upp, eins og það er orðað í fréttinni.

Hér má sjá sýningartímana sem bætt hefur verið við.