Leikstjóri Cloverfield snýr sér að gáfuðum öpum

Eins og við sögðum frá nýverið þá mun Rupert Wyatt, leikstjóri Rise of the Planet of the Apes, ekki leikstýra næstu mynd í þríleiknum sem ber nafnið Dawn of the Planet of the Apes. Í staðinn hefur nú verið kallaður til leikstjórinn Matt Reeves, en hann hefur áður leikstýrt myndunum Cloverfield og Let Me In.

Reeves fær í hendurnar handrit frá þeim Rick Jaffa og Amanda Silver, en Scott Z. Burns á síðan frumdrögin að handritinu.

Ekkert hefur verið látið uppi um söguþráð myndarinnar, en líklega taka Caesar og hinir gáfuðu og stökkbreyttu mannaparnir næsta skrefið í uppreisn sinni gegn mannkyninu.

Dawn of the Planet of the Apes verður frumsýnd þann 23. maí, 2014.