29. september á RIFF – umfjöllun

Það er mér hulin ráðgáta af hverju ég hafði aldrei kíkt á stærsta kvikmyndatengda menningarviðburð Reykjavíkurborgar þar til nú. Það fer ekki fram hjá manni að þetta er viðburður með stóru V-i sem teygir sig út fyrir landið og laðar að sér erlenda áhorfendur, enda var nóg af þeim á þessari frumraun minni á hátíðinni. Frakkar, Bretar, Austur-Evrópubúar, nefndu það!

Fyrir fyrstu sýninguna ákvað ég að svipast um og skoða hvernig fólk sótti hátíðina og hvað væri sniðugt að skoða. Í Bíó Paradís voru ýmsir aldurshópar viðstaddir og nóg af fólki á staðnum. Mikið var um vinalegt rabb og heyrði maður jafnvel nokkra ræða um ræmurnar sem þau sáu.

Blöð og bæklingar tengdir ákveðnum myndum lágu á borðunum, plaköt fyrir nokkrar myndir skreyttu veggina, en hið áhugaverðasta á staðnum voru án efa pappírslundarnir úr smiðju Elisabetta Percivati. Grunninn að lundunum sjáið þið hér að ofan, en þeir eru skreyttir og litaðir í stíl við ákveðnar persónur kvikmynda á borð við Okkar eigin Osló13 AssassinsGauragang, og My Neighbor Totoro. Virkilega flott og klárlega í stíl við hátíðina. Þeir eru staðsettir í innri forsal Bíó Paradísar. Hugsanlega voru aðrir pappalundar í Háskólabíói en tíminn milli sýninga um kvöldið gaf mér ekki færi á að athuga það. Ég lofa að smella einni mynd af þeim fyrir næstu færslu.

En nú að kjarna málsins…

Fyrsta sýningin sem ég sótti var samsett af tveim gjörólíkum stuttmyndum, Eitur í Æðum og Völvuspá.

Sú fyrrnefnda er rammíslensk stuttmynd sem gerist á afskekktu svæði á Vestfjörðunum þar sem aldraður ekkill með margar þungar minningar hefur úthugsað hvernig hans hinsti dagur muni verða. En áður en hann fær því framgengt bankar fortíðin á dyrnar og gefst honum tækifæri á að binda endi á ókláraðan sorgakafla fjölskyldu sinnar.

Myndin var tekin upp á afskekktu svæði Vestfjarðanna sem er ansi vel kvikmyndað og svæðið er vel unnið í atburðarás sögunnar. Leikurinn er fantagóður þar sem Edduverðlaunahafi síðasta árs, Theódór Júlíusson er feikigóður í fremstu víglínu en hann hefur góðan leikarahóp sér til stuðnings. Myndin er kannski aðeins of köld fyrir minn smekk en þó fögur að sjá, áhugaverð, og faglega gerð.

Eftir sýninguna var Q&A með eiginkonu leikstjórans og einum leikara myndarinnar. Þau svöruðu spurningunum af bestu getu og gáfu sæmilega innsýn inn í framleiðslu myndarinnar, en best hefði verið að hafa leikstjórann með á svæðinu til að fara nánar út í vinnslu sögunnar.

Völvuspá var af allt öðrum enda. Sú stuttmynd er myndræn endursögn á Völvuspánni sem tengir goðsögnina við nútímann og hvernig spáin hefur reynst sönn í gegnum árin. Myndin er of metnaðarfull miðað við það fjármagn sem lagt er í hana, en ástin á efninu skín í gegn og mikið er um flott skot og áhugaverða vinnslu á hugmyndum sögunnar.

Myndin er ójöfn í gæðum og hugmyndin frekar óljós fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér Völvuspá en ég hafði klárlega gaman af henni og væri verulega til í að sjá dýrari útgáfu af myndinni. Völvuspá er sérkennilegt sjónarspil og mikið er um flottar stillur þó hún virki örlítið kjánaleg á köflum. Tvennt ætti þó klárlega að vekja áhuga ykkar: Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki Óðins alföður og að þetta er hugsanlega í eina skiptið sem þið getið séð tölvuteiknaðan dreka fljúga yfir Reykjavík á hvíta tjaldinu.

Að myndinni lokinni var Q&A með leikstjóranum, en eitthvað hafði skipulag dagsins farið í köku þar sem spurningarnar voru færðar fram í anddyrið af því næsta sýning átti brátt hefjast í sama sal. Ég náði að spyrja um það sem mig langaði og fékk fullnægjandi svör, en það hefði verið mun fagmannlegra og betra að færa spurningarnar frá anddyrinu þar sem lítið var um pláss vegna mannfjöldans.

Eftir það var ferðinni haldið í sama sal til að sjá myndina sem hóf RIFF formlega fyrr í vikunni, Drottningin af Montreuil. Sú mynd reyndist mun léttari og kátari en ég hafði hugsað mér. Myndin er sjálfstætt framhald síðustu myndar þeirra Sólveigar Anspach og Diddu Jónsdóttur, Skrapp Út, en þú þarft ekki að vera búinn að sjá hana á undan þessari.

Drottningin af Montreuil er létt gamanmynd um sérkennilegan hóp persóna í franska úthverfinu. Þar fylgjum við Önnu og syni hennar sem kynnast og koma sér inn í hús hjá frönsku leikstýrunni Agöthu. Í gegnum þau kynnumst við öðrum skemmtilegum persónum úthverfisins og yfirgefnu sæljóni. Myndin er ekkert að flýta sér í ákveðna átt en það eru persónurnar, Montreuil úthverfið og stórskemmtilegur leikhópur myndarinnar sem halda athygli þinni út sýningartímann, enda er fjörið helst sprottið ú frá þeim. Indæl, hugljúf, og vel unnin gamanmynd sem kom mér í stórgott skap og fékk mig til að vilja upplifa Montreuil úthverfið frekar.

Að myndinni lokinni var Q&A með Sólveig Anspach og Diddu sem reyndist vera besta Q&A dagsins. Verst er að þetta var eina Q&A sýning myndarinnar því Sólveig veit svo sannarlega hvað hún syngur og hvernig á að gera þetta almennilega. Einnig er alltaf frábært að heyra hljóðið í henni Diddu.

Að lokum var síðan haldið í Háskólabíó þar sem salurinn fylltist fyrir Q&A sýningu nýjustu kvikmyndar danska leikstjórans Susanne Bier, en leikstjórinn hlaut einnig heiðursverðlaun hátíðarinnar á Bessastöðum í gær. Að þessu sinni átti spurningarflóðið sér stað fyrir myndina en ekki eftirá og virðist leikstjórinn hafa yfirgefið svæðið stuttu eftir. Salurinn hafði nóg um að spyrja og vildi Susanne hafa þetta stutt til að tefja ekki fyrir þeim sem komu aðallega til að sjá myndina. Hnitmiðuð svör og fínn formáli fyrir myndina. Fátt er jafn æðislegt og að sjá einn uppáhalds leikstjórann sinn í eigin persónu.

Hárlausi Hársskerinn er fyrsta kvikmynd þeirra Susanne Bier og Anders Thomas Jensen síðan þau hlutu Óskarsverðlaunin fyrir Hævnen, en það kemur eflaust mörgum á óvart sem þekkja til verka þeirra að þetta er fyrsta rómantíska gamanmyndin sem þau gera saman. Fyrir sýninguna sagði Susanne að þetta væri þó ekki í fyrsta sinn sem þau reyndu að gera gamanmynd því sumar af fyrrverandi myndum þeirra voru fyrst skrifaðar sem gamanmyndir sem urðu náttúrulega að dramamyndum síðar.

Útkoman kom verulega á óvart þó myndin sé ekki jafn nærri því jafn magnþrungin og fyrrverandi verk þeirra Susanne og Anders. Þetta er í raun hvernig týpíska formúlan að rómantísku gamanmyndum myndi virka ef skrifin, vinnslan, leikurinn, og sögustefnurnar væru öll fínpússuð og unnin beint frá hjartanu. Klisjurnar sem við höfum séð í hinum týpísku rómantísku gamanmyndum eru til staðar en þær hafa aldrei í minni minningu virkað jafn ferskar og hér. Myndin er laus við allt óþarfa kjaftæði og misskilninga sem láta svona sögur vanalega ganga upp og er skipt út fyrir raunverulega dramatík og mjög mannlegt eðli.

Það er yndislegt að sjá Trine Dyrholm í aðalhlutverkinu og þá sérstaklega í samanburði við hlutverk hennar í Hævnen. Átökin og persónan sem hún tekur að sér eru innblásin af móður Susanne Bier sem barðist tvisvar við brjóstakrabba. Átökin í myndinni eru raunsæ en þó ekki niðurdrepandi, jafnvel á köflum er málefnið unnið í gamansemi myndarinnar en missir þó aldrei virðinguna fyrir persónunni og átökunum. Einnig er gott að sjá Pierce Brosnan í efnisríku hlutverki og þau Trine virka sæmilega saman þó hann sé ennþá aðeins of stjarfur.

Myndin er mjög fyndin, átakanleg, og neyðir aldrei sögu sína áfram, heldur lætur hún stórgóðu persónur sínar keyra sig alla leið. Mannlegt raunsæi ríkir meðal aðalpersónanna og mikið er um stórskemmtilegar hliðarpersónur sem krydda tilveru myndarinnar. Ekki gallalaus en samt sem áður unaðsleg, hjartastór og áhrifarík rómantísk gamanmynd sem hefur mikið að segja. Einnig get ég ekki hrósað myndinni nóg fyrir endirinn sem var gjörsamlega fullkominn.

Ég hlakka innilega til að sjá meira af hátíðinni því þetta var fjandi góð frumraun fyrir mig.

Hvaða sýningar eruð þið búin að sækja á RIFF og hvað hefur heillað ykkur mest/minnst? Og veit einhver hvar ég get löglega séð Skrapp Út?