Slæm. Mjög

Segjum að það hafi verið ólíklegt en samt aldrei útilokað. Þessi sería hefði svo sem getað drattast á fætur og gert eitthvað nýtt og skemmtilegt með fimmta eintaki sínu, svona eins og Fast Five gerði á síðasta ári. Mikið hefði einmitt verið gaman ef Paul W.S. Anderson hefði allt í einu áttað sig á því hve slæmar seinustu tvær flestar myndirnar hans eru búnar að vera og sérstaklega hve þreytandi, grunnar, uppskriftabundnar og móðgandi á heilabúið þessar Resident Evil-myndir eru fyrir fólk yfir 17 ára. Hér áður hefði ég gert undantekningu fyrir mynd númer tvö, en bara vegna þess að hún er töluvert skárri og hressari en fyrsta myndin. Núna er mér orðið skítsama um þær allar, sama hve fjölbreyttar þær telja sig vera.

Þetta er allt komið út í svo mikla andskotans óreiðu! Hugmyndirnar eru fínar en það er einfaldlega of mikið af þeim og þegar villtar, sniðugar pælingar eru slátraðar með grútlélegum handritum verður niðurstaðan þeim mun meira svekkjandi. Ef áhorfendur eru ekki 12-15 ára drengir með zombie- og hasarbóner mun þeim líða eins og það sé verið að tala niður til þeirra á meðan spólgraður táningur reynir að sveifla háværri, blikkandi dótabyssu framan í þá. Fyrir mér er Resident Evil: Retribution búin að grípa titilinn af þeirri fyrstu sem versta myndin í arfaslakri bíóseríu. Og ég vil endilega fá að vita hvað ég gerði leikstjóranum til að verðskulda þennan óbeina miðfingur þegar mig langaði bara rétt svo í einhverja klikkaða afþreyingarmynd. Það er nefnilega munur á heiladauðu bíói sem má hafa heimskulega gaman af og peningamaskínu sem hefur öll verkfærin til að búa til slíkt, en kann svo ekki að nota þau.

Það er sama hvernig þetta er dressað upp í mismunandi litum. Óþefurinn er sá sami og eftir heilar fimm lotur er mér ennþá fjandsamlega sama um allt sem er í gangi í þessum myndum og botninum var loksins náð hér. Það er ekki hægt að halda með neinum vegna þess að þetta eru ekki karakterar, heldur fólk sem setur stút á varirnar og veifar vopnum sínum. Söguhetjan er (ennþá) þvinguð og yfirborðskennd, plottið er innihaldslaus ruglingur, leikararnir alveg hreint hræðilegir og ofbeldið kemur aldrei blóðinu í gang, þá út af því að tilraunir til að vera „brjálæðislega kúl”“eru gegnsæjar og aulalegar. Serían í allri sinni dýrð hefur aldrei nennt að vesenast í öðru en að leika sér með pós-hasar (þar sem sérstaklega er gætt til þess að leikarar séu ALLTAF fallegir í hverjum ramma), mildan viðbjóð, lélegar brellur, slow-mo eins og það sé glænýtt fyrirbæri og persónulegt uppáhald mitt: framhaldsbeituæðið hjá Anderson. Það þarf einhver nauðsynlega að hrista hann aðeins til, því hann virðist vera ófær um að búa til endi sem er ekki hallærislegur og pirrandi. Til eru undantekningar, en þá hefur hann eflaust ekki fengið að ráða.

Mér þykir það pínu hneykslandi að sjá hvernig einfaldi hugur leikstjórans er alveg hættur að þekkja muninn á hroðalegum og ásættanlegum leik. Þetta hefur lengi farið versnandi en í Retribution er ekki einn einasti aðili sem segir eða gerir eitthvað sem á að kallast sannfærandi. Anderson er greinilega alltof upptekinn við að klæða eiginkonuna sína upp í þröngum fötum á meðan hann kvikmyndar hana með þrívíddargræjunum sínum til að nenna að stýra leikurunum. Aðstæður eru ósannfærandi (enda undarlega ódýrt (sviðsmynda- og bluescreen) lúkk á þessu öllu), langflestar línurnar eru ósannfærandi og í rauninni er sama hvað allir gera, það er svo hryllilega auðséð að allir eru einungis að „leika“ og reyna að vera töff. Það er að vísu eitt sem allar Resident Evil-myndirnar eiga sameiginlegt. Opnunarsenurnar eru ansi sterkar og er misjafnt á milli þeirra hvenær og hversu fljótt þær missa dampinn. Retribution byrjar í rauninni alveg skrambi vel, með geggjaðri tónlist undir og virkilega smart kredit-opnunarsenu sem er sýnd afturábak í (hvað annað?) slow-mo. Stuttu síðar gerist hið óhjákvæmilega. Myndin byrjar að sökka og heldur áfram að sökka þangað til hún er búin.

Anderson er lélegur ljúflingur sem ætti að halda sig við það eitt að framleiða. Eða selja raftæki. Hann virðist vera ekkert smá viðkunnanlegur náungi í þeim viðtölum sem ég hef horft á eða á þeim commentary-rásum sem ég hef nördast til að hlusta á. Hann virkar alltaf svo léttlyndur í framkomu og vill líka í alvörunni meina að mikill áhugi og metnaður fari í gerð þessara mynda sem hann hefur verið með puttann í. Hann virðist sömuleiðis vera afar sannfærður um að hann taki skynsamar ákvarðanir í leikstjórasætinu og beri mikla virðingu fyrir efninu sem myndirnar eru oft byggðar á. Heildarálit meirihlutans og vinnubrögðin almennt hafa hingað til sagt sannleikann betur en Anderson sjálfur. Bestu myndirnar hans (allar tvær!) eru ekki einu sinni góðar, heldur þroskaheft skemmtilegar. Eða skemmtilega þroskaheftar. Allt annað er bara lélegt. Prýðilega útlítandi, ágætlega unnið á völdum sviðum, en samt lélegt, ef ekki þá hörmulegt. Retribution gæti vel verið það versta sem situr á ferilskránni hans. Hún er jafnglötuð og The Three Musketeers, nema hún var drepfyndin í ómeðvitaða kjánaleika sínum. Þessi er eingöngu slæm. Og leiðinleg.

Ef Milla Jovovich heldur virkilega að hún sé að leika einhverja alvöru persónu, þá skjátlast henni. Ef eiginmanninum hennar finnst líklegt að hann sé að gera eitthvað annað en að skjóta risastóra auglýsingu fyrir tölvuleiki sem eiga lítið sameiginlegt við hans efni, þá skjátlast honum líka. Það er ekki skrítið að maður sjái aldrei góða tölvuleikjamynd þegar fólk sættir sig við svona horbjóð.


  (2/10)