Um leikstjórann: Christopher Nolan

Hvað hefur hann gert?

Following (1998)
Memento (2000)
Insomnia (2002)
Batman Begins (2005)
The Prestige (2006)
The Dark Knight (2008)
Inception (2010)

Hvað er næst?

The Dark Knight Rises (2012)

Christopher Jonathan James Nolan. Maðurinn sem er svo svalur að hann fær ekki bara eitt heldur þrjú virðuleg skírnarnöfn. Maðurinn sem upphaflega gerði dökka, dramatíska þrillera og fékk heppilegt tækifæri til að leikstýra óvenjulegri Hollywood-mynd og breyttist strax í kjölfarið í glænýtt nördauppáhald. Titillinn stækkaði smátt og smátt og í dag fylgja honum ýmis heiti: Snillingur. Fagmaður. IMAX-pró. Ofurheili. Guðatákn.

Um þessar mundir eru nördarnir farnir að skiptast í fylkingar, þar sem sumir segja að Joss Whedon sé keisari nördanna í dag, en hinir segja að það sé Nolan. Undirritaður er (að svo stöddu) á þeirri skoðun að Chris sé hinn eini sanni og rétti Guð í þessari umræðu. Hins vegar fær Whedon heiðurinn á því að vera Jesú.

Og hver ætli þá sé heilagi andinn? Leyfum bara Tarantino, Cameron og Edgar Wright að slást um það.

Nolan og Whedon eru samt fullkomlega samanburðarhæfir. Báðir hafa ólíkar raddir en stefna að sömu áhorfendum. Báðir hafa einkenni sem heimurinn væri án og báðir hafa algjörlega umturnað myndasögugeiranum og nördaheiminum almennt. En Nolan er dýrkaður af ýmsum ástæðum en flestir eru sammála um það að hann er góður að jarðsetja stórar og yfirdrifnar hugmyndir og meðhöndla þær með miklum trúverðugleika. Hann er góður í að byggja upp spennu í sögu með oftast ófyrirsjáanlegri atburðarás og er frábær að stýra leikurum. Hann hefur gert kvikmyndir um einfara, andstæðinga og/eða keppinauta en aukaleikarar fá alltaf pláss til að anda, og oftast er gert aukakaraktera að eftirminnilegri fígúrum en þær ættu í rauninni að vera (dæmi: Mark Boone Junior, Maura Tierny, Andy Serkis, David Bowie, Michael Jai White, Tom Berenger o.fl.).

Nolan elskar að spila með dauða, sem er nokkuð athyglisvert og gefur það auðvitað ákveðna innsýn inn í persónuleika leikstjórans. Paul Thomas Anderson sagði sjálfur að alveg sama hver sagan er, hvar hún gerist eða á hvaða plánetu, þá gefur leikstjórinn alltaf stóran hluta af sjálfum sér í verkin sem hann skrifar eða leikstýrir. Plottin í Nolan myndum snúast hér um bil alltaf í kringum dauðar kærustur/eiginkonur, nema í Insomnia, þegar morð samstarfsfélagans spilaði í staðinn stóran þátt í söguþræðinum. Ég veit ekki alveg hvort þessi maður eigi sér einhverjar vondar minningar tengdum dauða, en það virkar svo sannarlega þannig. Síðast þegar ég vissi er eiginkonan hans, Emma Thomas, einn af framleiðendum hans.

Ef Nolan hefði ekki svona mikinn áhuga á snjöllum, lagskiptum spennusögum hefði hann auðveldlega getað breyst í tjáningarfullan art-mynda leikstjóra sem fókusar á margt ótrúlega neikvætt, eins og vonbrigði, svik og gallaðar aðalpersónur sem glíma endalaust við fortíðardrauga. Sem betur fer (?) er Nolan fyrirmyndar hasarleikstjóri sem hugsar alltaf stærra og stærra með hverju verki. Nolan er heldur ekki hrifinn af mörgum litum, en það er ekki við öðru að búast frá manni sem er að hluta til litblindur (og sér hvorki rauðan né grænan lit). Rammarnir eru oftast kaldir og víð nærskot mikið notuð. Ég mun samt bera enn meiri virðingu fyrir honum ef hann ákveður einn daginn að gera eitthvað smátt og ódýrt í framtíðinni. Bara svona upp á gamlar minningar. Memento er ábyggilega ein af fimm bestu myndum sem ég hef á ævi minni horft á.

Framkoma þessa manns er síðan næstum því alveg jafn aðdáunarverð og ferillinn hans enda Englendingur í orðins fyllstu merkingu. Ef þið hafið einhvern tímann horft á aukefni eða viðtöl með honum, þá hefur það líklegast ekki farið framhjá ykkur að hann brosir sjaldan en heldur alltaf kúlinu með pollrólega tón sínum. Hann er lágstemmdur en eitursvalur. Ofurheilinn sýnir sig líka heldur betur í undanförnum myndum hans sem eru ætlaðar „mainstream-inu,“ og það sem er e.t.v. best sagt um Nolan-myndir er að þeim tekst oftast að fullnægja áhorfendum með flottu lúkki og vönduðum hasar ef það eina sem þú vilt er góð afþreyingarmynd, en hins vegar er fullt af plássi eftir fyrir þemur og túlkanir. Í stuttu máli: ef þú vilt ekki þurfa að hugsa of mikið á meðan myndinni stendur, þá ættirðu alveg svosem að geta runnið með flæðinu, en ef þú fílar snilligáfukjöt á þínum beinum (eða „Bane-um?“) er þetta hárrétti maðurinn í verkið.

Engin væmni, ekkert melódrama, engin tilgerð. Allt smellur fullkomlega inn í blákalda heiminn sem það gerist í og þess vegna eru myndirnar svona framúrskarandi, burtséð frá útpældu handritsgerðinni og fagmennskunni með strúktúr. Stundum hefur Nolan-mynd dottið í þá algengu gryfju að útskýra sumt örlítið mikið, en oftast er það ekki fyrr en í lokaköflunum þegar samantekt er byrjuð að myndast á sögurnar. Kannski þarf maður bara að minna sjálfan sig á það að þetta er fyrst og fremst Hollywood kvikmyndagerð. En að mínu mati Hollywood kvikmyndagerð eins og hún gerist best. Allt sem ég vil sjá í svoleiðis myndum hefur skilað sér stöku sinnum í Nolan-myndum, eins og vönduð uppsetning á óútreiknanlegri sögu með ríkum persónum, en sem tekst samt að brillera þegar flugeldasýningin fer í gang.

FOLLOWING

Þegar maður eins og Nolan sýnir merki um amatör-takta, þá tekst honum samt að vera athyglisverðari og skarpari heldur en margir sem vinna reglulega í stórmyndabransanum. Following er nokkurn veginn fyrir Nolan það sem El Mariachi var í augum Roberts Rodriguez, eða það sem Hard Eight var fyrir PTA. Í hnotskurn var þetta lítið annað en glæsileg upphitunartilraun þegar heildarferillinn er skoðaður, en ég mæli klárlega með myndinni engu að síður, sérstaklega ef þú ert aðdáandi (sem ég ætla rétt að vona að þú sért, lesandi góður). Það sást greinilega að mikill áhugi væri á óreglubundinni söguuppbyggingu, fókus á einfarann og „litlausum“ stíl. Allt þetta gerðist svo að einhverjum þekktustu einkennum leikstjórans.

MEMENTO

Fyrir mig gerast nútíma noir-myndir ekki mikið betri en þetta. Memento er ein best skrifaða mynd sem ég hef nokkurn tímann horft á og henni er leikstýrt af svo ruglaðri fagmennsku. Margslungin, lagskipt, sniðug og endalaust spennandi og óvænt. Hugmyndin að spila söguna afturábak hefði í röngum höndum getað komið bjánalega út eftir smátíma en hér eru öll smáatriðin hugsuð út í gegn (sem yfirleitt gerist þegar Chris vinnur með bróður sínum, Jonathan). Það að leyfa atburðarásinni að spilast afturábak er líka fullkomin leið til þess að áhorfandinn sé aldrei einu skrefi á undan aðalpersónunni og veit ekkert betur en hann þegar hann uppgötvar nýja hluti. Við erum nánast jafn minnislaus og hann. Sum svörin eru í lausu lofti en flestum spurningum er svarað ef maður tekur smásjána með í glápið. Memento er ennþá í dag besta myndin sem hann hefur gert að mínu mati.

INSOMNIA

Flott endurgerð. Virkilega flott reyndar. Í fyrstu spilast þetta út eins og hefðbundin morðsaga en síðan fer myndin langt út fyrir línurnar. Söguþráðurinn gengur ekki út á það að reynt er að komast að því hver morðinginn er (við vitum það strax), heldur gengur hann út á samskipti morðingjans við veiklyndu lögguna, sem saman eiga meira sameiginlegt en áhorfandinn heldur. Insomnia gleymist oft þegar fólk talar um Nolan-myndir og eru voða skiptar skoðanir á henni, en mér fannst hún taka góðan þriller og gera hann örlítið betri. Flestir leikstjórar myndu sofa í gegnum svona endurgerðir en Nolan passar að láta sitt persónulega „touch“ á verkið. Ég efa að hann hafi séð eftir því miðað við hvaða mynd hann landaði eftir þessa.

BATMAN BEGINS

„SVONA vil ég gera Batman-mynd“ sagði Nolan við tökuliðið sitt eftir að hann hélt sýningu á Blade Runner áður en byrjað var að skjóta Batman Begins. Áhrifin sjást og kom það þægilega á óvart að sjá ofurhetjumynd fyrir fullorðna sem tók þessa týpísku origin-sögu og færði hana á nýtt level. Batman Begins er langt frá því að vera fullkomin en flest öll vandamálin tengdust handritinu… og Katie Holmes. Leikstjórinn lærði augljóslega af mistökum sínum þegar hann ákvað að gera framhaldið. Annars tussuflottur fullorðinstryllir og ljómandi myrkar þemur. Vitaskuld. Frá og með þessari mynd hvarf Michael Caine aldrei úr augsýn hjá Nolan.

THE PRESTIGE

Þegar Nolan er ekki að byggja upp spennu með fínum söguþræði finnst honum ofsalega gaman að grilla svolítið í áhorfendum sínum, og The Prestige er meira í líkingu við Memento heldur en Insomnia eða Batman. Uppsetningin er agalega töff, fyrir utan það hversu illa leikstjóranum gekk að fela twist-ið í endann. Þeir sem voru vakandi yfir myndinni gátu séð strax hvaða brögð voru í tafli fyrir karakterinn Fallon, en myndin var engu að síður stútfull af óvæntum stefnum. Sagan er líka stöðugt í vinnslu og dettur þess vegna aldrei á sjálfsstýringu. Því er ég ofsalega hrifinn af. Christian Bale og Hugh Jackman eru einnig klikkaðslega góðir!

THE DARK KNIGHT

Talandi um að „levela upp“ mynd sem var býsna djörf og byltingarkennd á sínu leveli. Batman Begins tók Blade Runner-fílinginn á meðan The Dark Knight vildi vera meira eins og Heat, og náði þeim töktum óaðfinnanlega. Það er erfitt að horfa á þetta sem einhverja venjulega hasarblaðamynd vegna þess að hún er borin fram með svo jarðbundnum hætti að maður kaupir hana frá A-Ö. Að minnsta kosti jafnmikið og hægt er að kaupa Batman-bíómynd í raunsæjum heimi. Klárt mál. Snilldarhandrit, örugg leikstjórn og illmenni sem fer í margar ólíkar sögubækur gerði þetta að myndinni sem margar, margar aðrar myndasögumyndir VILJA vera. Yfirheyrsluatriðið eitt og sér er mun betra en megnið af því sem kom út 2008.

Ég mun samt aldrei skilja af hverju Batman notaði djúpu guðaröddina sína fyrir framan Lucius Fox í lokahlutanum þegar hann vissi augljóslega að þetta væri Bruce Wayne undir grímunni. Umræðan um þessa blessuðu rödd er gjörsamlega endalaus, en ef þetta væri ekki svona góð ræma myndi þetta mögulega vera stærra vandamál. The Dark Knight er meistaraverk, en ekki með stóru M-i.


INCEPTION

Aldrei hefði þessi mynd getað verið gerð í allri sinni dýrð fyrir þetta sturlaða fjármagn ef Nolan hefði ekki skilað inn peningafjallinu sem The Dark Knight gerði. Framleiðendur Warner Bros voru svo kátir að þeir sögðu að hann mætti gera hvað sem hann vildi, og þegar einhver gefur Nolan (bræðrum) svo mikið frelsi er ekki spurning um annað en að gott bíó sé í vændum. Loksins sameinar Nolan hæfileika sína til að fokka í áhorfendum sínum við það að matreiða bilaðar hasarsenur. Svo bætti hann við stórum skammti af alvöru tilfinningum inn í blönduna og með aðstoð skemmtilegra leikara/karaktera varð úr þessu enn eitt djöfulsins Meistaraverkið hjá manninum. Í þetta sinn með stóru M-i. Snúningssenan á hótelganginum er ábyggilega hans merkasta afrek, sjónrænt séð.

Inception er sömuleiðis persónulegasta myndin hans Nolans. Hún hefur öll stærstu hráefnin (dauð eiginkona, byssuhasar, gáfur, yndislegt kamerurúnk o.fl.) en það sést strax að aðalpersónan er nokkurn veginn bara eins og Nolan ef hann væri hasarstjarna. Leo DiCaprio fer í jakkafötin og skellir upp svipaðri hárgreiðslu og leikstjórinn er þekktur fyrir.

THE DARK KNIGHT RISES

Leðurblökumaðurinn rís, en ætli leikstjórinn falli? Þegar þessi texti er skrifaður er undirritaður ekki enn búinn að sjá The Dark Knight Rises en að svo stöddu virðast væntingarnar aukast með hverjum deginum. Trailerinn verður sífellt betri og betri því nær sem dregur að myndinni og í rauninni þarf hún að vera meistaraverk til að vera ekki talin vonbrigði. Kannski verður hún jafngóð og Batman Begins. Kannski verður hún jafngóð og The Dark Knight (og The Avengers). Vonandi á sama stalli og Inception.

Allt getur gerst. Fólk var alltaf með þessar áhyggjur þegar Lord of the Rings þríleikurinn var kominn í gang og voru allir alltaf agndofa yfir því hversu vel væntingar stóðust. Nolan er að vísu búinn að vera á svo mikilli uppleið að það er að sjálfsögðu tímaspursmál hvenær hann tekur stórt skref afturábak. Slíkt er auðvitað bara náttúrulegt og hann er auðvitað mannlegur, þó ég líti auðvitað á hann sem Guð.

Nolan virðist þó vera með stoltur af myndinni sem hann er núna með í höndum og hefur notað ansi stór orð í viðtölum. Þess vegna vil ég koma því skýrt fram inn á Kvikmyndir.is að ef þessi mynd verður eins góð og við viljum, þá mun ég fá fullnægingu út um eyrun og mun líklegast þurfa á skurðaðgerð að halda svo það sé hægt að fjarlægja brosið mitt eftir sýninguna. En raunæisins vegna mun ég reyna að halda ró minni og vona það besta.

Nolan er uppáhalds leikstjórinn minn. Kannski ekki sá albesti frá upphafi, en sá sem er í mesta uppáhaldi hjá mér og hiklaust ef við þrengjum flokkinn niður í vestræna kvikmyndagerð. Ekki spurning! Sjö myndir að baki. Allar góðar. Ferillinn í rauninni enn bara rétt að byrja. Það þýðir ekkert að þrasa við staðreyndir.

Lækaðu endilega þetta ástarbréf ef þú ert sammála mér. Ég vil endilega sjá hversu marga íslenska Nolan-unnendur við höfum við skjáinn.

Ég þakka fyrir mig í bili. Takk fyrir að nenna að lesa/skrolla.