Paramount endurgerir Hitchcock-mynd

Paramount hafa ákveðið að endurgera kvikmyndina Suspicion, sem leikstýrt var af Alfred Hitchcock árið 1941. Suspicion fjallar um unga feimna konu sem giftist eldri séntilmanni en fer fljótlega að gruna hann um að reyna að myrða sig.

Veena Sud mun skrifa handrit nýju myndarinnar, en hún er hvað þekktust fyrir að hafa skrifað handrit sjónvarpsþáttaraðarinnar The Killing sem kom út í fyrra. Paramount hafa nú hafið leit að leikstjórum  og leikurum fyrir myndina.

Hitchcock lést árið 1980 og hafa myndirnar hans verið endurgerðar þónokkrum sinnum síðan þá. Sumar þeirra hafa engan veginn gengið upp en aðrar eru alveg ágætis skemmtun. Persónulega langaði mig til þess að kasta upp þegar ég sá endurgerð Gus Van Sant á Psycho sem kom út árið 1998. Hins vegar var ég mjög hrifinn af Disturbia sem kom út árið 2007, en sú mynd er í raun uppfærð endurgerð Rear Window eftir Hitchcock sem kom út árið 1954 (ég dýrkaði líka sjónvarpsendurgerðina sem kom út 1998 og skartaði Christopher Reeves í aðahlutverki).

 

 

 

Það verður mjög áhugavert að sjá hvaða stefnu endurgerðin tekur og hvort verði um að ræða Hollywood stórmynd eða sjónvarpsmynd, en það mun skýrast á næstu misserum. Annars er áhugasömum frjálst að ræða ykkar uppáhalds Hitchcock mynd í kommentunum hér fyrir neðan – ég vel The Birds!