James Cameron syrgir samstarfsmenn

Kvikmyndagerðarmennirnir Andrew Wight og Mike deGruy fórust í þyrluslysi í Ástrarlíu í gær. Wright er best þekktur sem einn framleiðanda hellamyndarinnar Sanctum frá því í fyrra, sem byggði á lífsreynslu hans.  James Cameron var annar framleiðandi þeirra myndar, og hafði Wright einnig unnið með Cameron við djúpsjávarheimildarmyndir hans. Ghosts of the Abyss og Aliens of the Deep. deGruy var kvikmyndatökumaður sem sérhæfði sig í neðansjávartökum og hafði m.a. unnið við BBC þættina Blue Planet.

Cameron sagði eftirfarandi í yfirlýsingu: „Mike og Andrew voru eins og fjölskylda fyrir mér. Þeir voru djúpsjávar bræður mínir og báðir sannir könnuðir sem gerðu ótrúlega hluti og fóru á staði þar sem menn höfðu aldrei komið áður.“

Kvikmyndargerðarmennirnir voru að vinna að heimildamynd saman og sagt er að þeir hafi verið að skoða tökustaði fyrir þá mynd þegar slysið varð, en þyrlan þeirra hrapaði við flugtak. Þeir skilja báðir eftir sig eiginkonur og börn.