Spillandi hulstur vikunnar – Invictus

Ath! Þeir sem lesa hvaða mynd er tekin til umræðu í þessum fasta lið eru beðnir um að skoða afganginn á þessu innihaldi á eigin ábyrgð. Tilgangurinn með þessu er að benda á sorglega myndefnið sem aðstandendur bíómynda setja stundum framan á DVD/BLU-Ray hulstrin, ómeðvitaðir (eða hvað?) um það að á þeim ríkir gríðarlegur spoiler. Sem sagt, ef þú hefur ekki séð myndina sem er nefnd í fyrirsögninni ertu vinsamlegast beðin/n um að skipta (tímabundið) um síðu, því oft er verið að skemma fyrir góðum myndum.

 

MYND: INVICTUS (2009)

HVERNIG ER HULSTRIÐ AÐ SKEMMA FYRIR MANNI?

Þó svo að Invictus sé ekki beinlínis það sem maður myndi kalla „hefðbundinn skáldskapur,“ þá er ansi fúlt að sjá úrslitin á lokaleiknum á hulstri myndarinnar. Ekki síst miðað við þá spennu sem byggist í kringum hann þegar liðið er á seinni helming myndarinnar. Það gerir áhorfið nokkuð tilgangslaust. Invictus er ekki einu sinni það góð mynd, en að minnsta kosti hefði verið hægt að trekkja sig aðeins upp fyrir lokaþriðjungnum (þegar sagan hættir að snúast um Nelson Mandela og dæmigerð íþróttarmynd í Hollywood-stíl tekur við). Ekki lengur. Þetta er bara heimska og eitruð markaðssetning, sem reynir klunnalega að koma skilaboðunum á framfæri: „Sjáið! Þetta er líka íþróttamynd! Matt Damon er svo kátur.“

Upprunalega bíóplakatið var fínt eins og það var, og það segir manni að aðstandendur og markaðsmenn hafi sérstaklega tekið sér tíma í það að „Fótósjoppa“ þennan myndaramma á DVD hulstrið. Þið getið skoðað bíóplakatið hér. Var Clint Eastwood svona sama? Því plakötin fyrir t.d. Mystic River og Gran Torino voru ansi töff. Þau sögðu manni alveg nóg.

Ef þið hafið fleiri tillögur að sambærilegum hulstrum, þá megið þið senda póst á tommi@kvikmyndir.is og kannski koma með ykkar eigin útskýringar á þeim, ef þið viljið.

Stikk: