LCD Soundsystem slær í gegn..aftur!

Heimildarmynd um indíhljómsveitina LCD Soundsystem, Shut Up And Play The Hits, var frumsýnd á Sundance Film Festival síðastliðinn sunnudag og fékk hrikalega góðar viðtökur. Myndin hefur fengið mikið hrós fyrir öðruvísi nálgun en flestar aðrar tónlistarmyndir.

Heimildarmyndin fylgir James Murphy og félögum á þeirra síðustu tónleikunum sem fóru fram í Madison Square Guarden í apríl á síðasta ári. Sýnt er frá undirbúning tónleikanna, tónleikunum sjálfum og eftirleiknum. Tónleikarnir táknuðu lok 6 ára lífs hljómsveitarinnar sem talin var fremst á sínu sviði.

Forsprakki hljómsveitarinnar, James Murphy, er sagður opna sig meira en oft áður í myndinni. Það sem kemur kannski aðdáendum meira á óvart en ella er óvissa hans í kringum ákvörðunina um að segja þetta gott með LCD Soundsystem. Jafnvel má segja að hann sjái eftir ákvörðuninni að sögn gagnrýnanda sem séð hefur myndina.

,,Aðdáendur hljómsveitarinnar eiga eftir að dýrka tónlistina í myndinni“, sagði Dylan Southern leikstjóri myndarinnar í viðtali. Southern ásamt Will Lovelace eru titlaðir leikstjórar myndarinnar, en þeir eru áður tiltölulega óþekktir í kvikmyndabransanum. Þeir sáu m.a. um klippingu, myndatöku og eftirvinnslu en ljóst er að James Murphy á mestan heiðurinn skilinn við gerð myndarinnar.

Murphy kom öllum á óvart með því að mæta á Sundance og svara spurningum aðdáenda eftir myndina. Óhætt er að segja að hann hafi slegið í gegn ef litið er á spjallborð tileinkað myndinni á veraldarvefnum. Murphy segist hafa myrt félaga sína í hljómsveitinni til að koma í veg fyrir að önnur hljómsveit lík LCD Soundsystem að gæðum gæti komið saman í framtíðinni.

Það sem gerir myndina öðruvísi en aðrar hljómsveitarmyndir eins og Shine A Light, The Last Waltz og Stop Making Sense er að myndatakan einbeitir sér að því að fylgjast með einstaklingum á tónleikunum. Þannig tekst þeim meðal annars að klófesta unglingsdreng, skælandi yfir því að hann muni ekki sjá uppáhalds hljómsveitina sína aftur. Þetta er meira en aðeins tónleikamynd, þetta er saga síðustu daga hljómsveitarinnar.

Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum nú undir lok mánaðarins í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún hlýtur takmarkaða dreifingu fyrst um sinn og enn er ekki ljóst hvort hún komi út á Íslandi, í kvikmyndahúsi eða á mynddisk.

Áhugasamir geta horft á trailerinn hér.