Sjáðu 7 mínútur úr Red Tails

Í lok janúar kemur kvikmyndin Red Tails loksins út í Bandaríkjunum. Myndin er ástríðuverkefni George Lucas, sem við þekkjum náttúrulega best sem höfund Star Wars og Indiana Jones, og hefur hann unnið að undirbúningi myndarinnar með hléum síðan árið 1988. Lucas steig þó til hliðar við vinnslu myndarinnar og gegnir aðeins hlutverki framleiðanda, en lokagerð handritsins er eftir þá John Ridley (Three Kings) og Aaron McGruder (The Boondocks), leikstjóri er Anthony Hemingway (The Wire). Athygli vekur að ásamt öllum aðalleikurum myndarinnar eru þeir hörundsdökkir – sem ekki er enn algengt í kvikmyndabransanum. Lucas hefur einmitt kallað myndina fyrstu „svörtu hasarmyndina“, en sagt er að hann hafi þó átt mikinn þátt sjálfur í að hjálpa til að móta hasaratriði myndarinnar, sem gætu sum hver minnt töluvert á Star Wars.

RT Clip from Tambay Obenson on Vimeo.

Lucas birtist í viðtali í The Daily Show nýlega til að kynna myndina, þar sem hann sagðist meðal annars vera tilbúinn með bæði framhald og „forleik“ (prequel) að myndinni ef hún gengur vel. Sjáum hvað setur, ég held allavega uppi þeim væntingum að myndin verði flott hasarmynd.