Chev Chelios gefst ekki upp

Leikstjóratvíeykið, sem samanstendur af Mark Neveldine og Brian Taylor, er þekkt fyrir ansi brenglaða hluti og myndir eins og Gamer og Crank-myndirnar eru þar efstar á blaði. Í febrúar á næsta ári verður nýjasta mynd þeirra gefin út, en það er framhaldið (sem enginn virðist hafa beðið um) á ofurhetjumyndinni Ghost Rider, sem ber undirheitið: The Spirit of Vengeance.

Haldin var sérstök forsýning á myndinni á hinu svokallaða Butt-Numb-A-Thon kvöldi sem netgagnrýnandinn Harry Knowles heldur árlega. Þar sýnir hann kvikmyndir í heilan sólarhring (og bauð gestum sínum í ár einnig upp á Ghost Protocol, Cabin in the Woods og Sherlock Holmes 2 svo eitthvað sé nefnt). Allavega, Knowles fékk sérstakt leyfi til þess að sýna Ghost Rider: The Spirit of Vengeance, og því miður er hún sögð hafa verið versta myndin á þessu maraþoni. Devin Faraci, hjá vefsíðunni BadAssDigest, vildi sjálfur meina að hún væri ennþá verri heldur en sú upprunalega. Hvort sem almenningsálitið muni segja það sama eða ekki verður að koma í ljós snemma á næsta ári.

Annar leikstjóranna, Mark Neveldine, var nýlega í viðtali við þekkta kvikmyndatímaritið Empire, og á meðan hann var að kynna nýju Ghost Rider-myndina sagði hann að það væri á dagskránni að gera enn eina Crank-mynd.

Empire spurði hvernig hægt væri að gera aðra mynd, miðað við hvernig sú seinasta endaði. Þá svaraði Neveldine: „Það eru alveg 20 leiðir sem koma til greina til að starta þriðju myndinni. Með Crank-myndirnar, þá ertu í rauninni bara að setja nýjan og nýjan pening í spilakassann og þá hefst nýr leikur. Það sem skiptir mestu máli er að við finnum rétta söguþráðinn. Í fyrstu myndinni þá var það adrenalínið sem hélt Chev Chelios á lífi, og í seinustu mynd var það rafmagnið. Við erum að föndra með hugsanlega söguþræði í augnablikinu.“

Neveldine segir að hann væri klárlega til í að leyfa Idris Elba að vera með í Crank 3. Elba leikur einmitt stórt hlutverk í Ghost Rider 2. Ljóst er allavega að þetta verkefni sé ekki að fara að gerast nema Jason Statham tekur þátt, og ef hann er til í þetta, þá er örugglega ekkert alltof langt í þessa tilvonandi steiksprengju.

Persónulega fannst mér eins og þessir leikstjórar höfðu tekið hverja einustu senu í Crank: High Voltage, og reglulega spurt sig: „Hvernig getum við ampað upp geðveikina og gert eitthvað hundrað sinnum klikkaðra??“
Ég yrði forvitinn að sjá hvernig þessir ADHD-leikstjórar ætla að tækla nýja Crank-mynd. Ætli við eigum aftur von á kynlífi á almannafæri?