Svekkjandi nýársbomba

Það gerist reglulega að Hollywood ákveði að prófa að hrúga saman fullt af stórstjörnum í eina risastóra mynd og sjá hvort áhorfendur taki vel í það eða ekki. En þó svo að þetta hafi hitt í mark með Love Actually, þá þýðir það ekki að það sé sjálfgefið að svona mynd gangi upp svo lengi sem hún er nógu sykruð og krúttleg.

Í febrúar á síðasta ári kom út rómantíska túrbó-gamanmyndin Valentine’s Day. Gagnrýnendur tóku ekki fallega á móti henni en hún gerði engu að síður fína hluti í miðasölunni. Aðstandendur Warner Bros. voru alls ekki lengi að gefa grænt ljós á (svokallaða) framhaldsmynd, sem er einfaldlega New Year’s Eve. Hún var frumsýnd nú um helgina í bandaríkjunum og þrátt fyrir að hafa hreppt toppsætið, þá gekk henni alls ekki nógu vel enda léleg aðsóknarhelgi fyrir kvikmyndahúsin og þar að auki fékk nýja myndin hörmulega dóma (7% á Rotten Tomatoes, takk fyrir). Það lítur út fyrir að þetta sé jafnvel verst gagnrýnda myndin sem hefur náð toppsætinu síðan Transformers: Revenge of the Fallen.

Myndin tók inn $13,7 milljónir, sem minna en helmingur af því sem stúdíóið bjóst við. Framleiðendur reiknuðu með dúnduraðsókn og vonuðust til þess að myndin myndi ná að lifa í bíóum út áramótin. Það virðist vera algjör óskhyggja núna, enda eru þrír þursar á leiðinni í bíó næstu vikurnar: Sherlock Holmes 2, The Girl with the Dragon Tattoo og Ghost Protocol.

New Year’s Eve er frumsýnd í næstu viku á Íslandi, á móti Dragon Tattoo.
Allir ofsalega spenntir?